Matthías Grindvík Grindvíkingur ársins
Matthías Grindvík Guðmundsson fyrrverandi húsvörður grunnskólans og sjúkraflutningamaður hefur verið valinn Grindvíkingur ársins 2011. Matthías er búinn að vera stoð og stytta allra barna í skólanum síðan hann byrjaði þar fyrir 30 árum og þjónaði Grindvíkingum einnig vel á erfiðum stundum sem sjúkraflutningamaður. Fjöldi tilnefninga bárust og úr þeim valdi fimm manna nefnd Matthías Grindvík sem Grindvíking ársins. Hann átti engan veginn von á þessu þegar haft var samband og honum tilkynnt um viðurkenninguna sem verður afhent formlega á Þrettándagleðinni. Frá þessu er greint á heimasíðu Grindavíkurbæjar í dag.
Um Matthías sagði m.a. í tilnefningum frá bæjarbúum:
„Hann hefur sinnt börnum í skólanum í 30 ár af ást og umhyggju sem þau hafa haft sem veganesti út í lífið. Það ætti hver maður að taka hann sér til fyrirmyndar og með tilnefningu af þessu tagi tel ég meiri líkur á að samfélagið taki höndum saman og skapi þann anda sem ríkt hefur frá þessum manni í öll þessi ár."
„Ég vil velja Matthías Grindvík Guðmundsson, eða bara Matta húsvörð sem Grindvíking ársins. Þessi maður er búinn að vera stoð og stytta allra barna í skólanum síðan hann byrjaði þar. Veit að hans er sárt saknað bæði af starfsmönnum skólans og einnig nemendum."
„Matthías eða Matti eins og hann er oftast kallaður hefur verið til staðar fyrir flest alla Grindvíkinga til margra ára, bæði í Grunnskóla Grindavíkur þar sem hann hefur verið andlit Grunnskólans og tekið vel á móti þeim sem komið hafa inn af götunni, nemendum og samstarfsfólki... Ég veit til þess að hann hefur oft verið skjól þeirra sem minna mega sín, er mikill húmoristi og hefur létt lund margra. Matti hefur einnig þjónað Grindvíkingum í gengum árin á erfiðum stundum, s.s. þegar hann vann sem sjúkraflutningsmaður og í því hlutverki hefur hann reynst mörgum vel. Matthías Grindvík Guðmundsson hefur hlýlegan og heillandi persónuleika."
Matthías hætti að vinna á síðasta ári í Grunnskóla Grindavíkur vegna veikinda eftir 30 ára farsælt starf. Þess má geta að Matthías sótti um að bæta við millinafninu Grindvík vorið 2010. Mannanafnanefnd samþykkti umsóknina.
Grindavik.is