Markmiðið að skapa 300 störf í heilbrigðisþjónustu
Unnið er að stofnun heilsufélags á Suðurnesjum með það að markmiði að skapa 300 ný störf á heilbrigðissviði á næstu þremur árum. Hugmyndin er að sveitarfélögin komi að félaginu ásamt Keili, Háskóla Reykjavíkur og Háskóla Íslands, Þróunarfélaginu og aðilum í ferðaþjónustu. Félagið hefði með höndum rannsóknir og þróunarstarf, heilstutengda ferðaþjónustu og læknisþjónustu sem höfðaði til erlendra sjúklinga sem kæmu hingað til lands að leita sér lækninga
Hugmyndir um félagið eru að þróast. Keilir hefur samþykkt að taka þátt í verkefninu ásamt Reykjanesbæ og Þróunarfélaginu. Sandgerðisbær og Sveitarfélagið Garður hafa tekið jákvætt í hugmyndirnar og beðið er svara frá bæjarfyrirvöldum í Vogum og Grindavík, að því er fram kom í máli Árna Sigfússonar, bæjarstjóra, á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gær.
Árni sagði verkefni væntanlegs heilufélags þríþætt. Í fyrsta lagi verkefni á sviði þróunar, fræðslu og þjálfunar þar sem Keilir kæmi sterkt inn í. Jafnframt hefðu Háskóli Íslands og Háskóli Reykjavikur sinnt verkefninu mikinn áhuga en þeir myndu leggja til rannsóknarverkefni sem tengst gætu svæðinu.
Í öðru lagi myndi félagið vinna að heilsutengdri ferðaþjónustu, t.d. í tengslum við Bláa lónið. Að því kæmu ferðaskrifstofur sem hefðu hug að að vera með þjónustuáherslur á þessu sviði.
Í þriðja lagi myndi félagið bjóða upp á læknisþjónustu sem höfðaði til erlendra sjúklinga sem kæmu hingað til lands að læta sér lækninga. Að því kæmu skandinavísk fyrirtæki sem hefðu áhuga á samstarfi við innlend fyrirtæki að því að bjóða þessa þjónustu.