Marka Jón hættir störfum og fær silfurmerki Keflavíkur
Jón R. Jóhannsson var sæmdur silfurmerki Keflavíkukr og þakkað samstarfið í hart nær 30 ár í hófi á útnefningu á íþróttamanni og mönnum Keflavíkur þann 29. des. sl. í félagsheimili Keflavíkur.
Jón R. Jóhannsson spilaði með yngri flokkum ÍBK, lék einnig með meistaraflokki og var í liðinu sem vann fyrsta Íslandsmeistaratitil ÍBK 1964. Jón var kallaður marka Jón eða markaskelfirinn mikli úr Keflavík. Hann var markakóngur Ungó og ÍBK og frægt var þegar hann skoraði í einum leiknum fótbrotinn. Jón tók við þjálfun meistaraflokks ÍBK á ásamt Guðna Kjartanssyni 1975 þegar Englendingurinn Joe Hooley hætti um miðjan júní og gerðu þeir félagar ÍBK að bikarmeisturum í fyrsta sinn síðar um haustið. Jón ásamt Magnúsi Haraldssyni ráku Ungó á síðari hluta sjöunda áratugarins, en þar var mjög lífleg starfsemi. Jón hefur fylgt íþróttahreyfingunni í hart nær 30 ár, m.a. sem fyrsti forstöðumaður íþróttahússins við Sunnbraut og svo sem forstöðumaður Sundmiðstöðvarinnar í Keflavík. Jón lét af störfum um áramótin.
Á myndinni afhendir Einar Haraldsson, framkvæmdastjóri Keflavíkur Jóni bókina um sögu Keflavíkur eftir að hafa nælt í hann silfurmerki félagsins. Jón kemur einmitt við sögu í bókinni enda fyrsti markahrókur Keflavíkur. Bróðir hans, Steinar Jóhannsson tók nánast strax við hlutverki bróður síns í gullaldarliði Keflavíkur sem vann fjóra Íslandsmeistaratitla á áratug og þrjá þeirra á fimm ára tímabili 1969-73. Sonur Steinars, Guðmundur, hefur síðan fetað í fótspor föður síns og frænda og er einn af burðarstólpum Keflavíkurliðsins í dag.