María skoðaði styttuna af Rúnari
Vinnu við styttu af Herra Rokk, Rúnari heitnum Júlíussyni, miðar ágætlega. Rúnar Hartmannsson vinnur að gerð styttunnar en hann hefur nú þegar mótað andlit rokkarans. Sem kunnugt er tók Rúnar mót af nafna sínum rokkaranum aðeins örfáum dögum áður en hann lést.
María Baldursdóttir, ekkja Rúnars, kom við á vinnustofu Rúnars Hartmannssonar nú í vikunni til að skoða árangurinn. Hún var mjög hrifin af þeirri vinnu sem hefur verið unnin og bíður spennt að sjá lokaútkomuna.
Eins og gefur að skilja kostar gerð styttunnar talsverða vinnu og peninga en listamanninum hefur ekki gengið sem best að fá styrktaraðila að verkinu. Hann biðlar því til almennings að leggja verkefninu lið. Rúnar rekur bón- og þvottastöð fyrir bíla, Bestabón, að Bakkastíg 10. Þar tekur hann bíla í þrif og bón og aflar þannig fjár til styttugerðarinnar. Þá getur fólk fylgst með framvindu verksins. Pantanir í þrif berist í síma 892 1240.
Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson