Fréttir

  • Margverðlaunaður skrúðgarður dó í höndum bæjarins
  • Margverðlaunaður skrúðgarður dó í höndum bæjarins
Föstudagur 28. ágúst 2015 kl. 09:39

Margverðlaunaður skrúðgarður dó í höndum bæjarins

– Garðurinn við Bræðraborg í Garði á kafi í órækt

Um þessar mundir eru liðin 10 ár frá því Unnur Björk Gísladóttir afhenti Sveitarfélaginu Garði skrúðgarð við Bræðraborg í Garði til minningar um Magnús Magnússon frá Bræðraborg. Magnús var mikill áhugamaður um ræktun og umhverfi. Hann var fæddur 29. ágúst árið 1915 og hefði því orðið 100 ára nk. laugardag.

Skrúðgarðurinn við Bræðraborg í Garði var áratuga starf Magnúsar en uppbygging garðsins tók 55 ár. Eftir fráfall Magnúsar árið 1994 hélt Unnur Björk, ekkja Magnúsar, áfram að hugsa um skrúðgarðinn þar til hann var gefinn Sveitarfélaginu Garði þann 29. ágúst 2005 á 90 ára árstíð Magnúsar.

Þegar sveitarfélagið tók við skrúðgarðinum hófst hins vegar sorgarsaga því umhirða í garðinum hefur verið lítil og er skrúðgarðurinn nú orðinn að hryllingsgarði eins og Unnar Már, sonur Magnúsar heitins, lýsir garðinum. Nú er þessi fyrrum náttúruperla í Garði að drukkna í illgresi og órækt þrátt fyrir fögur fyrirheit þegar gjöfinni var veitt móttaka.

„Að sjálfsögðu verður sveitarfélagið að sjá vel um skrúðgarðinn,“ sagði Sigurður Jónsson, þáverandi bæjarstjóri í Garði árið 2005. Fimm árum síðar tók Ásmundur Friðriksson, þáverandi bæjarstjóri í Garði, við bréfi frá ættingjum Magnúsar, þar sem lýst var vonbrigðum með umhirðu á skrúðgarðinum. Í dag, fimm árum síðar, er ástandið í skrúðgarðinum orðið enn verra og óræktin mikil. Þar eru þó hugmyndir uppi um að setja púttvöll fyrir eldri borgara í Garði. Hins vegar er ástandið á grasinu í þessum fyrrum skrúðgarði þannig að töluverðan tíma tekur að ná því í nothæft ástand fyrir púttvöll.

Unnar Már hvetur bæjaryfirvöld í Garði til að sýna gjöfinni til sveitarfélagsins meiri virðingu nú á 100 ára fæðingarafmæli Magnúsar Magnússonar og að skrúðgarðinum verði komið í það form að sómi sé af fyrir Garð. Eins og staðan er í dag hefur þessi margverðlaunaði skrúðgarður dáið í höndum sveitarfélagsins.














 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024