Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Margt spennandi í gangi í Grindavík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 4. mars 2023 kl. 07:00

Margt spennandi í gangi í Grindavík

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, var með skrifstofu sína í Grindavík í einn dag.

„Það er mjög margt spennandi í gangi hér í Grindavík og þótt aðalatvinnugreinin sé og muni líklega alltaf vera sjávarútvegur, þá eru fjölmörg verkefni að spretta út frá honum, t.d. fyrirtækin Codland og Marine Collagen,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem var með skrifstofu sína í Grindavík síðasta fimmtudag.

Áslaug Arna tók upp þann sið síðasta haust, að staðsetja skrifstofu sína vítt og breytt um landið. Fimmtudaginn 23. febrúar var röðin komin að Grindavík og voru fjölmargir bæjarbúar sem heimsóttu hana á bæjarskrifstofuna í Grindavík. Áslaug nýtti daginn í Grindavík, heimsótti fjölmörg fyrirtæki og fékk betri tilfinningu fyrir því sem brennur á vörum Grindvíkinga. „Þetta verkefni hófst síðastliðið haust, ég fékk tækifæri á að stofna nýtt ráðuneyti en ég held að framtíðin í störfum sé þannig að fólk geti tekið starfið með sér þangað sem það vill. Margir sáu tækifærin í heimsfaraldrinum, að taka vinnuna með sér og þetta er það sem koma skal held ég þar sem það er hægt. Ég tel að það sé mikilvægt gagnvart tækifærum á landsbyggðinni að hafa aukinn sveigjanleika og ríkið má ekki vera eftirbátur í því, þess vegna ákvað ég að ganga fram með góðu fordæmi og prófa þetta sjálf líka, hingað til hefur þetta gefið mjög góða raun.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ráðuneyti Áslaugar kemur að starfsemi sem nánast er hægt að finna í hvaða bæjarfélagi sem er á Íslandi, hvort sem um iðnað eða nýsköpun er að ræða og þótt enginn háskóli sé á Suðurnesjunum eða hvað þá í Grindavík, þá hefur hún fylgst með framgangi Fisktækniskóla Íslands. „Það er mikilvægt fyrir alla byggðaþróun að átta sig á að sú útflutningsgrein sem mun líklega stækka hvað mest á komandi árum er ýmiss konar iðnaður, eins og þekkinga- og hugverkaiðnaður. Alþjóðageirinn er vaxandi og forsenda þess að við náum betri árangri, aukum útflutningstekjur okkar, náum upp hagvexti og minnkum efnahagslegar sveiflur, er að við höfum fleiri stoðir í samfélaginu. Ég tel þessa stoð nýsköpunar vera mjög vænlega til árangurs án þess að auðlindirnar hafi sveiflukennd áhrif á greinina. Þótt Fisktækniskólinn heyri ekki undir mitt ráðuneyti, þá hef ég fylgst með stöðu mála og veit um áskoranirnar sem skólinn stendur frammi fyrir, t.d. varðandi húsnæðismálin. Við eigum að styðja við fjölbreyttari menntun sem undirbýr fólk undir atvinnulífið eins og þá sem Fisktækniskólinn gerir.“ 

Áslaug heimsótti einnig Grindina, Vigt, hjá Höllu og Brugghúsið 22.10. „Einstök upplifun að sjá hvað skemmtileg uppbygging verður í kringum hugmyndir fólks á svæðinu byggða á sterkum grunni eins og við sjáum með trésmiðjuna Grindina. Einstakt handverk og hönnun sem laðar að sér nýtt fólk í samfélagið. Þá er ánægjulegt að það sé gleði með brugghúsbreytingarnar um að geta selt beint frá litlum aðilum,“ sagði hún.

Þetta eru ekki fyrstu kynni Áslaugar af Grindavík sem ráðherra en hún gegndi stöðu dómsmálaráðherra þegar jörð skalf í Grindavík og upp frá því braust út eldgos. „Það er gaman að koma til Grindavíkur í öðrum erindagjörðum en síðast þegar ég kom en þá voru miklar áskoranir á samfélagið. Ég var í miklu sambandi við Almannavarnir, mætti hingað á íbúafund vegna yfirvofandi hættu og var í sambandi við lögregluna vegna þeirrar stöðu sem kom upp. Núna eru tengslin önnur, nær atvinnulífinu, framtíðar atvinnutækifærum og uppbyggingu, nær fólkinu og sérstaklega unga fólkinu. Ég er ekki frá því að ég verði búin að kynnast Grindavík og Grindvíkingum betur eftir þessi ólíku embættisverk,“ sagði Áslaug Arna að lokum.