Fréttir

Margt áunnist á stuttum tíma
Laugardagur 25. júlí 2015 kl. 09:00

Margt áunnist á stuttum tíma

-Reykjanes jarðvangur sækir um inngöngu í Global Geoparks Network

Eggert Sólberg Jónsson er verkefnastjóri Reykjanes Geopark verkefnisins sem hófst árið 2012 með skipan stjórnar og ráðningu verkefnastjóra en markmiðið er að hljóta alþjóðlega vottun Global Geoparks Networks en það eru samtök sem eru studd og vernduð af UNESCO.


Eggert hafði áður kynnst hugmyndafræði Geopark þegar hann starfaði sem forstöðumaður Kötluseturs í Vík í Mýrdal en hann býr nú í Grindavík ásamt eiginkonu sinni Þuríði (Lollu) Gísladóttur og tveimur börnum þeirra.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Reykjanes Geopark verkefnið hefur nú skilað skýrslu til Global Geoparks Network en hún er svar við erindi matsnefndar UNESCO sem tók svæðið út í kjölfar umsóknarinnar. Þurfti að þeirra mati að vinna í nokkrum þáttum og svarar skýrslan því þ.e. útlistar hvað hafi verið gert og hvað áætlað sé að vinna á næsta ári. Faghópur mun taka skýrsluna til umsagnar og endanleg ákvörðun verður tekin á haustfundi samtakanna í september.

Eggert er bjartsýnn og segist vona það besta.

„Mér finnst við hafa gert mjög margt á þeim stutta tíma frá því að verkefnið hófst. Við erum í raun mjög ungur jarðvangur og höfðum starfað í stuttan tíma þegar við sóttum um. Sem dæmi má nefna að danskur jarðvangur sem sótti um að komast inn í fyrra hafði verið starfræktir í 10 ár. En hvernig sem fer þá mun öll sú vinna sem ráðist hefur verið í nýtast svæðinu og íbúunum hér.”


En hvað er Geopark?

Mynd: Eggert með úttektaraðilum Global Geopark Network í Seltúni 2013 ásamt Þuríði Aradóttur verkefnastjóra Markaðsstofu Reykjaness.

„Geopark er svæði sem er einstakt á heimsvísu og hefur að geyma einstakar jarðminjar og merkilega menningarsögu. Reykjanesið hefur allt til að bera til þess að hljóta þessa vottun en matsaðilar sögðu okkar sérstöðu liggja í því að við búum á eldfjallaskaga og hér er jarðhiti sem við höfum verið að nýta okkur. Hér eru fornar gönguleiðir í hrauninu og fjölbreyttar gerðir eldstöðva en allt þetta er tilkomið vegna flekaskilanna og Atlantshafshryggjarins sem gengur hér á land. Þetta er sérstaða sem við þurfum að draga frekar fram í okkar markaðssetningu.”

 

Í dag eru starfandi yfir 100 jarðvangar í heiminum, hverju mun vottunin skila okkur?

„Vottunin er mikil viðurkenning fyrir þá sem starfa á svæðinu í dag og skapar tækifæri til vöruþróunar og nýsköpunar sem byggir á sérstöðu svæðisins. En þetta styrkir líka stöðu svæðisins í markaðslegu tilliti og á vonandi eftir að efla þekkingu íbúa á svæðinu um sögu og sérstöðu þess. Fyrst og fremst er þetta fyrir rekstraraðila á svæðinu, sem geta nýtt sér Reykjanes Geopark til framdráttar, með því að kenna sig við það.”

Eggert tekur fram að Reykjanes Geopark fjalli ekki bara um jarðfræði.
„Sérstaða okkar liggur líka í menningunni og því hvernig samfélagið á Suðurnesjum hefur þróast í gegnum aldirnar. Þar má nefna matarmenningu en þar liggja tækifæri fyrir veitingaaðila en rannsóknir hafa sýnt að með því að setja logo Geopark á vörurnar má auka eftirspurn og sölu.

Mynd: Frá opnun gestastofu Reykjanes Geopark í Duushúsum í mars sl.

Mikilvægt samstarf
Reykjanes Geopark er samstarfsverkefni sveitarfélaganna á svæðinu en samstarfsaðilar eru jafnframt Keilir, Þekkingarsetur Suðurnesja, Bláa lónið, Ferðamálasamtök Reykjaness, HS orka og Heklan, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja. Að sögn Eggerts er mikilvægt að með samstarfinu hafa sveitarfélögin komið sér saman um ákveðna forgangsröðun og uppbyggingu á svæðinu.

„Markmiðið er að byggja upp þetta svæði og leggja í sameiginlegan sjóð og okkur hefur gengið vel að sækja mótframlög. Á síðsta ári fengum við 5 milljónir frá samstarfsaðilum en mótframlög úr öðrum sjóðum upp á 8 og hálfa milljón.

Nú er verið að vinna deiliskipulag á Reykjanesi og þegar uppbyggingu er lokið þar erum við komin með ferðamannaveg sem tengir saman svæðið. Þar má nefna marga áhugaverða staði eins og Hafnarberg, Brú milli heimsálfa og Valahnúk. Svo gætir þú haldið áfram og tekið Ósabotnaveginn og farið út í Garð, þá ertu kominn með stærri leið eða lengri.”

 

Eggert leggur áherslu á að það taki tíma að skipuleggja svæði og ná samningum við landeigendur en á sama tíma hafi verið lögð áhersla á innri markaðssetningu og fræðslu um svæðið sem sé ekki síður mikilvægt.

„Það sem mér finnst ganga vel er áherslan á að koma því á framfæri hvað Reykjanesið er merkilegt svæði, við verðum jú að byrja á sjálfum okkur. Við gáfum út grallarabókina fyrir elstu börn leikskóla og ynstu börn grunnskóla og munum halda áfram að þróa námsefni í samstarfi við kennara. Ný gestastofa í Duushúsum leikur stórt hlutverk í fræðslunni og hugmyndin er að byggja upp net þeirra í þéttbýlisstöðum á svæðinu sem hugsanlega verða sérhæfðari og erum við komin með fjármagn í aðra gestastofu. Allt miðar þetta að því að koma fræðslu á framfæri, þú gengur betur um landið ef þú veist hversu verðmætt og fallegt það er - ef þú þekkir til svæðisins. Það er líka mikilvægt að það komi fram að Reykjanes Geopark er ekki bara fyrir ferðamenn, það er ekki síður fyrir íbúa á svæðinu en markmiðið er að auðvelda þeim aðgengin að náttúruperlum í nágrenninu.

Mynd: Frá gönguferð Reykjanes Geopark um Reykjanesið vorið 2014.

Með skilgreindum ferðamannavegi á Reykjanesi skapast tækifæri fyrir þjónustuaðila sem vilja nýta sér þann mikla fjölda sem fer um svæðið en gamlar tölur segja gesti vera 200.000 árlega. með bættri aðstöðu mætti fjölga þeim að sögn Eggerts en í deiliskipulagi á Reykjanesi er gert ráð fyrir þjónustuhúsi.

 

„Jarðvangurinn er í raun bara þróunarverkefni og markmið hans er að byggja upp áfangastaði eða áningastaði. Það er hins vegar ekki verkefni jarðvangsins að reisa eða reka veitingstað eða kaffihús. Það er okkar hlutverk að koma á framfæri sérstöðu svæðisins til þess að aðrir geti nýtt sér það til verðmætasköpunar. það er von okkar að menn nýti sér það tækifæri.”


Skilgreindir hafa verið 55 áhugaverðir staðir í sveitarfélögum á Reykjanesi sem þykja merkilegir jarðfræðilega og menningarlega. Ætlunin er að sögn Eggerts að gera þessa staði aðgengilegri m.a. með fræðsluskiltum en það verður gert í samráði við viðkomandi sveitarfélög og landeigendur til lengri tíma.


Mynd: Fjögur innkomuhlið hafa verið sett upp í Reykjanes Geopark

„Reykjanes Geopark á bara eftir að verða meira áberandi á næstu árum og þegar ég lít til baka hefur heilmikið gerst á þessum tveimur árum þrátt fyrir að okkar fjármagn sé mun minna en það sem aðrir jarðvangar úti í heimi hafa.

Nú er verið að vinna deiliskipulag fyrir Reykjanes og Brimketil. Þá er unnið að uppsetningu á þriðja tug fræðsluskilta. Markmiðið er ekki bara að fjölga ferðamönnum heldur líka að fá þá sem þegar sækja svæðið til að dvelja þar lengur. Eins má búast við því að samsetning þeirra sem heimsækja svæðið breytist sem og eðli heimsóknanna.

Þó svo við fáum ekki aðild að samtökunum í ár þá nýtist sú mikla vinna sem farið hefur í verkefnið íbúum á Suðurnesjum og gestum þeirra, s.s. uppbygging áningarstaða, upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn, fræðsluefni, áætlanir og stefnumótun, en ekki síst aukið samstarf ólíkra aðila”