Margir mættu á Skattadag Deloitte
Mjög góð mæting var á Skattadaginn sem Deloitte hélt á Park Inn by Radisson hótelinu í Reykjanesbæ í vikunni. Að sögn Önnu Birgittu Geirfinnsdóttur, forstöðumanns útibús Deloitte á Suðurnesjum, er hugmyndin að baki Skattadeginum er að auka á upplýsingagjöf um þróun skatta og skattframkvæmdar og draga fram á aðgengilegan máta áhrifin fyrir fólkið og fyrirtækin í landinu.
„Við leggjum mikið upp úr því að halda Skattadaginn í samstarfi við hagsmunaaðila og Samtök atvinnurekenda á Reykjanesi eru samstarfsaðili okkar hér. Við höfum haldið Skattadaginn í Reykjavík á hverju ári síðastliðin 13 ár, en Skattadagurinn hefur tvisvar sinnum verið haldinn hér í Reykjanesbæ. Bæði í Reykjavík og hér hefur verið mjög góð þátttaka en segja má að Skattadagurinn hafi fest sig í sessi hjá einstaklingum og fyrirtækjum sem vilja hlýða á það nýjasta sem er að gerast í skattamálum hverju sinni,“ segir hún.
Á fundi Skattadagsins á Suðurnesjum fór Guðmundur Pétursson, formaður Samtaka atvinnurekenda á Reykjanesi (SAR), yfir sögu SAR og það helsta sem er um að vera í atvinnulífinu hér á Suðurnesjum á næstu misserum.
Vala Valtýsdóttir, sviðsstjóri á skatta- og lögfræðisviði Deloitte, fór yfir helstu skattabreytingar í árslok 2015 en þar ber helst að nefna miklar breytingar tengdar ferðaþjónustu en meðal annars var innleiddur afturvirkur virðisaukaskattur. Að sögn Önnu eykur það flækjustigið töluvert og því er mikilvægt að skattayfirvöld sinni vel leiðbeinandi hlutverki sínu gagnvart ferðaþjónustuaðilum á næstu misserum.
Pétur Steinn Guðmundsson, lögfræðingur á skatta- og lögfræðisviði Deloitte, fjallaði um nýjan skattabrunn Deloitte sem er ætlað að auka gagnsæi um framkvæmd og úrlausn skattamála en þar er meðal annars að finna niðurstöður dóma frá árunum 2005 til 2015. Samkvæmt tölfræðilegri samantekt kom meðal annars fram hversu erfitt það er að bera sigur úr býtum í skattamálum fyrir Hæstarétti. Þetta á sérstaklega við þegar um er að ræða einkamál einstaklinga, en vinningshlutfall ríkisins er þar 83%. Að sögn Önnu er munurinn á þeim málum og einkamálum lögaðila í raun sláandi en þar lækkar vinningshlutfall ríkisins í 56%. Auk þess fór Pétur Steinn yfir ábyrgð stjórnenda lögaðila gagnvart hinu opinbera.
Sveinbjörn Indriðason, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Isavia ohf., kynnti starfsemi Isavia ohf. og þann gríðarlega vöxt sem orðið hefur á starfsemi félagsins á Keflavíkurflugvelli. Auk þess fór hann yfir þróun helstu skattgreiðslna félagsins en þær hafa vaxið mikið á síðastliðnum 5 árum.
Anna Birgitta Geirfinnsdóttir, forstöðumaður útibús Deloitte á Suðurnesjum, setti fund Skattadagsins 2016 í Reykjanesbæ.