Margir hlaupið 1. apríl á Suðurnesjum
Fjölmargir hafa látið plata sig í dag, 1. apríl, og tekið verslunartilboð í verslunum Varnarliðsins alvarlega. Uppúr kl. 09 í morgun fór síminn að hringja á skrifstofu Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, þar sem fólk var að spyrjast fyrir um þetta ákvæði í kjarasamningum sem heimilaði fólki að versla í verslunum varnarliðsins tvo daga á ári, en annar dagurinn átti að vera í dag. Kristján Gunnarsson, formaður VSFK, staðfesti að tugir hafi hringt og um tíma hafi lítið annað verið gert en að útskýra gabbið fyrir fólki. Óskar Þórmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, staðfesti að þó nokkrir hefði klippt út tímabundna aðgangsheimild í Víkurfréttum í dag og framvísað í aðalhliði Keflavíkurflugvallar, til að freista þess að fá að versla ódýrt. Einnig eru dæmi þess að fólk hafi notað hina svokölluðu Vallarpassa og mætt í verslanir Varnarliðsins í góðri trú. Þá sagði Óskar að talsvert hafi verið hringt í lögregluna á Keflavíkurflugvelli til að forvitnast um málið. Einnig hafa Víkurfréttum borist hringingar af höfuðborgarsvæðinu, þar sem fólk vildi tryggja það að allt væri rétt og satt. Hrekkurinn mun hins vegar ekki hafa fallið jafn vel í bandaríska yfirmenn á Keflavíkurflugvelli og munu þau orð hafa verið látin falla að réttast væri að fara í mál við okkur á Víkurfréttum vegna uppákomunnar.
Það er hins vegar hefð fyrir því að fjölmiðlar láti lesendur sína hlaupa 1. apríl og því eru hrekkir sem þessir fullkomlega löglegir.
Myndin: Tímabundin aðgangsheimild sem lesendur hafa klippt úr blaðinu og freistað þess að komast inn á Keflavíkurflugvöll til að versla ódýrt.
Það er hins vegar hefð fyrir því að fjölmiðlar láti lesendur sína hlaupa 1. apríl og því eru hrekkir sem þessir fullkomlega löglegir.
Myndin: Tímabundin aðgangsheimild sem lesendur hafa klippt úr blaðinu og freistað þess að komast inn á Keflavíkurflugvöll til að versla ódýrt.