Margar spurningar brenna á Grindvíkingum
Íbúafundur fyrir Grindvíkinga var haldin í Laugardalshöll þriðjudaginn 12. desember og var hann vel sóttur. Frummælendur á fundinum voru Benedikt Halldórsson, fagstjóri jarðskjálftavár á Veðurstofu Íslands, Úlfar Lúðvíksson frá lögregluembættinu á Suðurnesjum, Hulda Ragnheiður Árnadóttir frá Náttúruhamfaratrygginum Íslands og Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra. Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, stýrði fundinum.
Frummælendurnir fóru yfir það sem sneri að þeim en það sem brann helst á Grindvíkingum, hvenær fólk fengi að flytja aftur heim, svar kom við því og ljóst að það verður ekki fyrir áramót og kom fram í máli Benedikts að mannekla á Veðurstofunni valdi því að ekki sé hægt að vakta svæðið betur á nóttunni. Unnið er í að bæta við mannskap en þetta vakti talsverða athygli á fundinum og var Benedikt spurður sérstaklega út í þetta.
Þegar frummælendur höfðu lokið máli sínu var opnað fyrir spurningar Grindvíkinga í sal og eins var hægt að senda spurningar í gegnum Facebook-síðu Grindavíkurbæjar.
Nokkuð mikið var spurt út í lánamál þeirra sem eru með lán sín hjá lífeyrissjóðunum og var Hulda Ragnheiður m.a. spurð hvort viðkomandi þyrfti áfram að borga tryggingariðgjöldin ef búið er að dæma húsið ónýtt. Þessi spurning kom Huldu greinilega í opna skjöldu og hún hvatti viðkomandi til að hafa sérstaklega samband og gaf til kynna að farið yrði út í sértækar aðgerðir til að koma til móts við ólíkar þarfir. Sigurður Ingi var spurður hvort ríkisstjórnin myndi beita sér í málefnum lánþega lífeyrissjóðanna en ekki kom afdráttarlaust svar við þeirri spurningu. Sigurður var líka spurður út í húsnæðisstyrkinn sem ríkisstjórnin samþykkti og fullvissaði hann fundarfólk um að styrkurinn verði framlengdur ef þurfa þykir, eða að annað sambærilegt úrræði verði í boði. Sigurður sagði að ríkisstjórnin myndi ekki yfirgefa Grindvíkinga en hann gat ekki gefið afdráttarlaust svar um hvað hægt verði að gera fyrir fólkið sem getur alls ekki hugsað sér að flytja aftur til Grindavíkur. Hann sagði að við værum stödd í miðjum atburðinum og ekki væri gott að ákveða aðgerðir fyrr en að honum loknum en það yrði skoðað.
Úlfar Lúðvíksson var spurður hvort kæmi til greina að spyrja þá sem fara til Grindavíkur, um kennitölu því í huga þess sem spurði, væri í raun ekkert eftirlit með því hverjir væru að fara inn og út úr bænum. Úlfar sagðist ekki vita til þess að neinir annmarkar hefðu verið á þessu en hugsanlega væri rétt að gera þetta eins og um var spurt. Úlfar sagði sömuleiðis að ekki hefði komið til tals að hleypa sumum fyrr inn í bæinn, t.d. fólki sem vinnur í Grindavík og er ekki með börn.
Sviðsstjórar deilda Grindavíkurbæjar sátu líka fyrir svörum og fór Atli Geir Júlíusson, sviðsstjóri Umhverfis- og skipulagssviðs, yfir hvernig vinnan við fráveituna hafi gengið. Atli sagði að megninu til væri búið að mynda alla fráveitu frá bænum og hefði hún litið betur út en talið var. Ennþá væru nokkrar götur í Hópshverfinu sem tengjast inn á stofninn sem er stærsta viðgerðin við kirkjuna, þar sem ekki er óhætt að nota fráveituna en unnið væri hörðum höndum að því að koma því í lag og verklok áætluð eftir nokkra daga. Atli sagði líka að kalt vatn væri komið á allan bæinn.
Hulda var spurð hvort þeir sem eru með mikið skemmd hús, fái tjón sitt að fullu bætt. Hulda svaraði því að markmiðið sé að viðkomandi húseigandi sé með sömu stöðu og fyrir hamfarirnar. Hulda sagði að húseigandi myndi fá að sjá matsgerðina og hægt yrði að koma með athugasemdir. Eins svaraði hún spurningum varðandi fráveitur frá húsum, ekki verður skoðað sérstaklega nema grunur sé um bilun og hún bað þá sem hafa orðið fyrir tjóni með matvæli í frystikistum, að tilkynna þau tjón sem fyrst.
Einn spyrjenda vildi meina að svörin frá Veðurstofunni væru ekki nógu skýr. Benedikt fór yfir að öll hegðun jarðhræringanna núna, væru sambærilegar þeim sem leiddu til eldgoss og á meðan landris væri og virkt kvikuinnflæði, væri ekki þorandi að leyfa búsetu í Grindavík. Benedikt var sömuleiðis spurður hvort Veðurstofan hefði lært af síðustu rýmingu, sem var ekki gefin út fyrr en nokkrum klukkustundum eftir að allt lék á reiðiskjálfi. Benedikt svaraði því að viðbragðsáætlanir séu í stöðugri endurskoðun og viðbragðið 10. nóvember hefði sérstaklega verið skoðað og úr yrði bætt.
Jóhanna Lilja Birgisdóttir, yfirsálfræðingur á fræðslusviði Grindavíkurbæjar, svaraði spurningu þess eðlis hvort skólar verði opnaðir í Grindavík þegar fólki verður hleypt aftur inn, eða hvort börn eigi að klára skólaárið utan Grindavíkur. Jóhanna sagði að lagt sé upp með að skólahald verði klárað utan Grindavíkur þar til annað kemur í ljós. Ef breyting verði, muni það verða skoðað en benti á að Hópsskóli hafi eitthvað skemmst en ef mögulegt verði að hefja kennslu fyrr í Grindavík, verði það að sjálfsögðu gert.
Fannar svaraði að lokum nokkrum spurningum, m.a. hvort útsvar breyttist á meðan Grindvíkingar búa í öðrum sveitarfélögum. Fannar sagði að lögheimilisskráning gildi og hvatti Grindvíkinga til að flytja ekki lögheimili sitt. Hann sagði að Grindavíkurbær hugsi til framtíðar varðandi hve mikið aðdráttarafl, vegsummerki jarðhræringanna geti verið fyrir erlent ferðafólk og til skoðunar sé að láta sumar sprungur halda sér og jafnvel að láta ónýtt hús standa sem hugsanlegt safn. Fannar sleit svo fundinum með þeim orðum að fljótlega yrði haldinn annar sambærilegur fundur.