Margar óskrifaðar venjur og reglur á Alþingi
Nýjir þingmenn Suðurnesja fóta sig á Alþingi
Alþingismenn Suðurnesja eru nú sjö talsins eftir síðustu kosningar en þar af eru fimm þingmenn að hefja störf í fyrsta sinn á Alþingi. Þó skammt sé liðið af sumarþingi þá hafa nýju þingmennirnir fengið nasaþefinn af störfum á þessum nýja vinnustað. Sjálfstæðismaðurinn Vilhjálmur Árnason frá Grindavík er einn af þeim fimm nýliðum frá Suðurnesjum sem hófu störf fyrir skömmu en honum var tekið opnum örmum þegar hann mætti að Austurvelli. „Mér var tekið mjög vel, í raun eins vel og hægt var að búast við. Hér eru allir uppteknir við að taka hver öðrum vel og eiga ánægjuleg samskipti,“ sagði Vilhjálmur í samtali við Víkurfréttir. Hann segir starfsfólk Alþingis upp til hópa vera mjög hjálpfúst og almennilegt.
„Þetta er frábær vinnustaður. Það einnkennir allt þetta starfsfólk hversu hjálpfúst, duglegt og almennilegt það er. Hér finna sig allir mjög velkomna og það er góður andi á vinnustaðnum.“
Lítill timi til að setja sig inn í málin
Vilhjálmur segir Alþingi ekki alveg vera eins og hann hafði búist við að öllu leyti. „Vinnustaðurinn er þó skemmtilegur og áhugaverður, eins og ég bjóst við. Það sem kemur mér kannski helst á óvart er hve mikill tími er fyrirfram skipulagður og þar af leiðandi er mun minni tími en ég bjóst við til að setja sig inn í málin og ræða við við þá sem til þekkja. Til að nýta tímann vel, þarf maður að vera mjög skipulagður, sem samt er erfitt þar sem dagskráin breytist á hverjum klukkutíma. Það ánægjulegasta í þessu er að ég finn strax að maður getur hér haft áhrif til góðs og því veit ég að þetta verður skemmtilegur tími,“ segir þingmaðurinn sem verður þrítugur á þessu ári.
Hann segir þann stutta tíma sem hann hefur dvalið á Alþingi hafa verið lærdómsríkan og afar áhugaverðan. Ýmsar óskrifaðar venjur og reglur koma honum þó spánskt fyrir sjónir en hann býst við því að það taki smá tíma að læra á menningu Alþingis.
„Margt hefur komið manni á óvart, en hér eru gríðarlega margar venjur, reglur og bara alls kyns lenska sem hvergi stendur skrifuð, sem þú átt að kunna skil á. Það mun taka langan tíma að átta sig á þessu öllu saman og læra á þá menningu sem hér er. Um leið held ég að sú menning muni aðeins breytast með tilkomu svona margra nýrra þingmanna,“ segir Vilhjálmur og bætir við.
„Ég á eflaust eftir að komast að mörgum þessum óskrifuðu reglum og venjum. Sem dæmi má nefna að þegjandi samkomulag ríkir um að fara ekki upp í andsvar þegar þingmaður flytur jómfrúarræðuna sína. Einnig er við viss tilefni dónaskapur ef ekki er farið í andsvör við þingmann sem er að flytja fyrstu ræðu um eitthvað mál o.s.frv. Sem sagt þær venjur og óskrifuðu reglur sem ég hef haft veður af nú þegar snúa flestar að hvenær er tekið til máls og þessháttar, en ég er samt langt frá því að vera búinn að átta mig á því munstri og mun líklega bara búa mér til mitt munstur eftir því sem ég tel árangursríkast.“
Vilhjálmur segir nýja þingmenn vera duglega að hjálpast að og hann vonast eftir góðu samstarfi milli allra flokka „Við nýju þingmennirnir erum öll jafningjar hér og erum dugleg að hjálpast að við að fóta okkur á nýjum vinnustað þvert á flokka. Hér hefur maður engan yfirmann annan en þjóðina og það mun taka dálítinn tíma að venjast því,“ segir þingmaðurinn að lokum.