Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Már vill fleiri leiðsöguhunda fyrir blinda
Már Gunnarsson með leiðsöguhund. Hundurinn á myndinni er í þjálfun og fenginn að láni í þessari myndatöku.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 11. febrúar 2021 kl. 13:38

Már vill fleiri leiðsöguhunda fyrir blinda

Átján blindir einstaklingar eru nú á biðlista eftir leiðsöguhundi en aðeins er hægt að úthluta tveimur hundum á ári. Biðin eftir hundi getur því verið allt að níu árum. Blindrafélagið þarf að fjármagna kaup á leiðsöguhundum en hver hundur kostar á bilinu fjórar til sex milljónir króna. Félagið hefur aðeins fjármuni til að standa straum af kaupum á tveimur hundum á ári en málaflokkurinn er fjármagnaður með sölu á dagatölum. Það er íslenska ríkið sem úthlutar hundum en Blindrafélagið gefur ríkinu hundana.

Már Gunnarsson fer fyrir átaki þessa dagana þar sem hann vekur athygli á málefninu og í pistli sem hann skrifar á Facebook talar hann um samspil hvíta stafsins og leiðsöguhunda. Már var sex ára gamall þegar hann kynntist hvíta stafnum fyrst.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Að nota svona prik er ekki bara að ganga um og dingla honum hingað og þangað heldur krefst notkun hans mikillar færni í daglegu umferli blinds einstaklings. Í gegnum stafinn skynja ég t.d. kanta, tröppur, staura, alskonar undirlag og ekki síst gangandi fólk. Það skiptir miklu máli að fólk sem mætir mér úti á götu viti að ég sjái ekki, uppá mitt öyggi og ekki síður þeirra, þar er stafurinn lykilatriði. Því miður eru margir blindir einstaklingar sem skammast sín fyrir að nota staf og kjósa frekar að sleppa honum sem getur beinlínis verið lífshættulegt og aftrar þeim við að gera það sem annars væri vel mögulegt.

Þegar ég var yngri kom það alveg fyrir að ég kaus að sleppa stafnum og ég má vera þakklátur fyrir að hafa enn fram-tennur mínar miðað við þá hluti sem ég hef gengið á og ekki slasað mig! Stafurinn er orðinn hluti af mér og ég fer ekki út úr húsi án þess að hafa hann með.

Stafurinn er samt alls ekki töfralausn á öllu og tæki það allt of mikið pláss að fara yfir öll þau atriði í okkar umhverfi sem skapar vandræði eða hættu. Í stuttu máli rafmagnsbílar, vegaframkvæmdir ,ónærgætið fólk og hlutir í höfuðhæð.

Fyrir rúmu ári tók ég þá ákvörðun um að sækja um leiðsöguhund og með því færa mína hæfni, öryggi og sjálfstæði upp á hærra plan. Leiðsöguhundum er úthlutað einu sinni á ári af hinu opinbera og kostar hundurinn fullþjálfaður til landsins 4 til 6 milljónir. Aftur á móti hefur Blindrafélagið þurft að fjármagna hundana og gefið ríkinu. Blindrafélagið hefur einungis fjármagn til að kaupa tvo hunda á ári og erum við 18 á biðlista!

Blindrafélagið er að selja leiðsöguhunda-dagatalið til styrktar verkefninu og erum við svo þakklát fyrir hvert selt eintak! Sjá link hér fyrir neðan.

En ef einhverjum dettur í hug sniðug leið til að setja hærra fjármagn í verkefnið til að grisja þennan 18 manna biðlista sem lengist á hverju ári, má endilega hafa beint samband við mig og ég kem hlutunum áleiðis, eða hafa samband við Blindrafélagið.

Sérfræðingar segja að blindur einstaklingur ásamt leiðsöguhundi, staf og farsíma með leiðsögubúnaði séu allir vegir færir,“ segir Már Gunnarsson í pistlinum..

Hundurinn á myndinni er í þjálfun og fenginn að láni í þessari myndatöku!

https://www.blind.is/is/vefverslun/leidsoguhundadagatalid