Mannskapur frá Björgunarsveitinni Suðurnes á hálendisvakt
Mannskapur frá Björgunarsveitinni Suðurnes sinnir þessa dagana gæslustörfum á hálendi Íslands og er þetta fimmta sumarið í röð sem sveitin tekur þátt í hálendisvakt Landsbjargar. Hefur sýnt sig undanfarin ár að mikil þörf er hálendisvaktinni til að stytta viðbragðstíma ef eitthvað ber út af. Það kom einmitt í ljós um síðustu helgi þegar fjórhjólamaður úr Keflavík festi farartæki sitt mitt í ískaldri jökulá við Jökulheima. Tveir bílar frá sveitinni eru nú á Kili mannaðir átta mönnum.
Kári Viðar Rúnarsson, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, var á leið upp á Kjöl með vistir og fleira fyrir mannskapinn þegar VF náði tali af honum í dag. Að hans sögn hefur vaktin gengið vel ef frá er talin ein bílvelta um síðustu helgi skammt frá Kerlingarfjöllum. Þrír erlendir ferðamenn misstu bílaleigubíl útaf Kjalvegi og var m.a. einn þeirra handleggsbrotinn á tveimur stöðum. Kjalvegur er slæmur á köflum og alveg eins og þvottabretti, svo notuð sé algeng samlíking á ástandi íslenskra vega.
Hálendisvaktin er mönnuð af sjálfboðaliðum og hafa björgunarsveitirnar ekki tekjur af henni aðrar en 100 þúsund króna fjárstyrk upp í olíukaup á bíla og tæki. „Það dugar þó varla til ef þú ert með tvo bíla og eitthvað umstang í kringum þetta. Vegalengdirnar eru langar á hálendinu og við erum með 11 staði sem við þurfum að skoða reglulega á því svæði sem við sinnum frá Gullfossi og nánast að Blöndu,“ segir Kári. Hann segir mannskapinn þó ekki telja þetta eftir sér enda hafi komið í ljós hversu áríðandi hálendisvaktin er og hún sé hluti af starfi sveitanna.
„Síðan vorum við með gæslu í Landeyjarhöfn kringum Verslunarmannahelgina með nýja Atlantic 75 bátinn sem við vígðum í sumar. Við vorum að þar við störf frá föstudegi fram á mánudagskvöld, m.a. við að tryggja að það kæmu engir bátar inn í innsiglinguna meðan Herjólfur fór þar um. Það gekk vel og ekkert vesen á ferðinni nema við fengum eitt útkall vegna vélarvana skemmtibáts með fjóra farþega skammt utan við Vestmannaeyjar. Við drógum hann til hafnar í Eyjum en þessi aðgerð tók um tvo tíma.
Slysavarnarfélagið Landsbjörg var með viðbúnað þarna við Landeyjarhöfn að eigin frumkvæði. Ég held að það sé engin spurning að þetta er eitthvað sem menn þurfa að skoða í framhaldinu,“ sagði Kári.