Mannleg áföll voru áberandi og vofeiflegir atburðir tíðir
„Mannleg áföll voru áberandi og vofeiflegir atburðir tíðir. Það sem kannski vakti sérstaka athygli fæðingalæknisins var sú staðreynd að fósturlát voru hér óvenju tíð og fáséðir vaskapnaðir fóstra og barna sem fæddust með þá af þeirri stærðargráðu að hlaut að þurfa að vekja athygli á. Fúlu yfirborðsvatni var kennt um, sennilega menguðu af starfsemi herflugvallarins. Eftir að ný vatnsveita var lögð hefur aldrei borðið á slíku,“ segir Konráð Lúðvíksson fyrrverandi yfirlæknir Fæðingardeildar Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í grein sem hann skrifar og birtist í prentútgáfu VF á morgun.
Konráð fjallar í greininni um samband kirkjunnar og heilbrigðisstofnunarinnar og kemur inn á ýmsa þætti sem hafa ekki verið mikið í umræðunni í Reykjanesbæ. Grípum hér aðeins inn í greinina:
„Ég vona að ég særi engan með því að halda fram að samband kirkju og stofnunar okkar hafi verið óvenju sterkt og á margan hátt framsækið. Þetta samstarf hefur vissulega tekið breytingum eftir tíðaranda sem ríkir á hverjum tíma. Það var stofnað til þess um miðjan 9. ártug síðustu aldar, sennilega vegna náins samstarfs séra Ólafs Odds Jónssonar heitins og ritara þessa pistils. Suðurnesin voru á þeim tíma um margt sérstakt samfélag sem lutu áhrifa frá herstöðinni á Háaleiti, bæði menningarlega, efnahaglega og félagslega. Efnishyggja var hér rík, fólk hafði flust alls staðar af landinu til að bjarga sér í skjóli herstöðvarinnar, þar sem fólki voru greidd hærri laun en almenn gerðist annarsstaðar. Hvati til menntunar var því lítill á meðan fólk gat sótt vel launuð störf þangað. Það þóttu einkenni þessa samfélags að hvers kyns nýungar birtust hér fyrr en annars staðar, ímyndaðar þarfir meiri, bílar stærri, jólaljósin skærari, gjarnan öll blikkandi, sum sé glimrandi velmegun. Í skjóli Kanans þróaðist líka rík tónlistarmenning. Hljómar glöddu landann og boltaíþróttir voru í hávegum hafðar og hafa alla tíð verið síðan. Slík var birtingarmynd okkar hjóna þegar við fluttumst hingað nýkomin úr námi með 3 lítil börn að taka við fæðingardeild sem réði sérfræðing til starfa í fyrsta sinn. Það rann hins vegar fljótlega upp fyrir manni að ekki var allt sem sýndist. Bak við þessa glansmynd var önnur sem laut að almennri velferð og andlegri líðan. Fólk var býsna óvægið í samskiptum hvert við annað, biðlund takmörkuð, spuninn stuttur og gelt all hávært. Það þótti heldur ekki í frásögur færandi þótt tæki og tól fengjust „lánuð“ frá Kananum því þar var ofgnótt alls. Það ríkti þannig sérsakt siðferði. Við fundum fljótt fyrir þessu innan veggja þessa húss.“