Mannlaus bíll með kerru rann tugi metra
Mannlaus sendibifreið með kerru aftan í lagði af stað frá útgerðarfyrirtækinu Vísi í Grindavík fyrir helgi, rann niður bratta brekku, áfram yfir götu og hafnaði á grjótgarði við höfnina. Lögreglunni á Suðurnesjum barst tilkynning um þetta óvænta ferðalag bifreiðarinnar um hádegisbilið í gær.
Bílnum hafði verið lagt á bílastæði við Vísi og rann hann tugi metra áður en grjótgarðurinn stöðvaði ferð hans. Af förum eftir hann að dæma hafði hann rétt sneytt fram hjá ljósastaur í brekkunni. Farmur var á kerrunni sem hann dró. Minni háttar skemmdir urðu á bíl og kerru.