Mannlaus bíll fauk í Njarðvík
Fimm tjónvaldar létu sig hverfa af vettvangi í vikunni eftir að hafa valdið tjóni á jafnmörgum bifreiðum í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Þessu til viðbótar voru skráð allmörg umferðaróhöpp, þar á meðal árekstur á Reykjanesbraut milli Grænásbrautar og Hafnavegar og aftanákeyrsla á Hafnargötu. Engin slys urðu á fólki.
Þá fauk mannlaus bifreið á aðra bifreið, einnig mannlausa á bílastæði við Sundmiðstöð Njarðvíkur.
Loks voru tveir ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur og skráningarnúmer fjarlægð af einni bifreið. Síðastnefnda atvikið væri ekki í frásögur færandi ef bifreiðin hefði ekki verið óskoðuð því hana hefði átt að færa til skoðunar 1. ágúst 2011.