Manneskjulegt jákvætt samfélag
Ólafur Þór Ólafsson, oddviti J-lista Jákvæðs samfélags í Sandgerði og Garði
Kosið er til bæjarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi Sandgerðis og Garðs á morgun, laugardaginn 26. maí. Víkurfréttir lögðu tvær spurningar fyrir oddvita allra framboðslista í sveitarfélaginu.
Ólafur Þór Ólafsson, oddviti J-lista Jákvæðs samfélags í Sandgerði og Garði:
Hver eru stærstu kosningamálin í þínu sveitarfélagi fyrir þessar kosningar?
Ég held að íbúar í Sandgerði og Garði vilji fyrst og fremst að að nýju sveitarfélagi verði stýrt af skynsemi og ábyrgð á sínum fyrstu árum. Fólk er enn að átta sig á breyttu umhverfi og það skiptir máli að vel sé haldið á hlutunum þegar þessi fyrstu skref nýs sveitarfélags eru tekin. Það eru eðlilega væntingar til þess að íbúar finni fyrir því að þeir búi nú í stærra og öflugra sveitarfélagi og sérstaklega kallað eftir auknu leikskólarými, einkum fyrir yngstu börnin, fólk vill sjá heilsugælsu á ný í Sandgerði og Garði, fólk vill að byggðarkjarnarnir séu tengdir með hjólreiða- og göngustíg og það eru væntingar um uppbygginu íþróttamannvirkja. Það vantar því sannarlega ekki verkefnin og væri hægt að nefna margt fleira.
Hver eru helstu málefni ykkar framboðs, að þessu sinni?
Á J-listanum leggjum við áherslu á manneskjulegt, jákvætt samfélag þar sem allir hafa tækifæri til að eiga gott líf. Sjálfbærni, ábyrgð og aukið íbúalýðræði eru megin stefin í okkar stefnu. Það er erfitt að taka einhver einstaka mál út, en ég vil þó nefna að við leggjum áherslu á fjölgun leikskólarýma, viljum að uppbygging á Kirkjubóli á milli byggðakjarnanna verði sett á dagskrá og að hlustað verði á kröfur fólks um uppbyggingu stígs á milli Sandgerðis og Garðs Þá viljum við heilsugæslu í sveitarfélaginu okkar og að uppbygging hjúkrunarrýma komist á dagskrá. Fyrst og framst viljum við gott og jákvætt samfélag.