Mannekla hjá lögreglu tefur endurnýjun starfsmannapassa í Leifsstöð
160 starfsmenn Keflavíkurflugvallar hafa beðið í margar vikur eftir að passar þeirra verði endurnýjaðir af lögreglunni. Komast ekki á milli staða á vellinum. Starfsmannastjóri kvíðir sumarörtröð og lögregla kvartar undan manneklu.
Dæmi eru um að starfsmenn á Keflavíkurflugvelli komist ekki leiðar sinnar um völlinn vegna útrunna starfsmannapassa sem þeir fá ekki endurnýjaða. Um 160 umsóknir varðandi endurnýjaða starfsmannapassa liggja nú á borði lögreglunnar á Suðurnesjum, en endurnýjunar var krafist á þriggja ára fresti. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Síðustu tíu ár hefur lögreglan þurft að staðfesta að starfsfólk sé með hreinan sakaferil, en slík skoðun hefur tekið um viku til tíu daga. Í nóvember í fyrra tók ný reglugerð gildi, svo skoðun lögreglu varð mun umfangsmeiri en áður og eru henni gefnir þrír mánuðir til yfirferðarinnar.
Svala Guðjónsdóttir, starfsmannastjóri IGS, stærsta atvinnurekanda í Leifsstöð, segir í Fréttablaðinu að ástandið hafa farið hríðversnandi eftir að reglunum var breytt.
„Við erum með fastráðna starfsmenn með áralanga reynslu sem geta nú ekki sinnt skyldum sínum vegna þess að þeir hafa ekki fengið passann sinn endurnýjaðan,“ segir Svala við blaðið. „Þeir þurfa að vera með annan starfsmann með sér til að komast í gegn þar sem dyr eru læstar og annað. Meira að segja næturvörðurinn okkar kemst ekki sjálfur í gegn.“
IGS mun ráða á milli 250 til 300 nýja starfsmenn fyrir sumarið og segir Svala að hún eigi erfitt með að sjá hvernig afgreiðsla þeirra umsókna eigi eftir að ganga upp fyrir sumarið.
„Ef við komum fólki ekki inn verður það einfaldlega þannig að vélar komast ekki út og inn á réttum tíma. Þetta mun engan veginn ganga upp, hvorki fyrir IGS en aðra á þessu svæði.“
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir við Fréttablaðið skoðunina taka mun meiri tíma en áður, en þrátt fyrir það fylgi því ekkert aukið fjármagn.
„Við erum að reyna að gera eins vel og við getum, þetta er alls ekki verkefni sem mætir afgangi,“ útskýrir Sigríður. „En við höfum áhyggjur af því að við ráðum ekki við allar þessar nýju umsóknir ef við fáum ekki frekari mannskap.“