Mannbjörg í sjóslysi við Vogastapa
Mannbjörg varð í kvöld þegar skemmtibátur með tvo menn um borð sökk við Vogastapa í kvöld. Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Skemmtibáturinn datt út úr sjálfvirku tilkynningakerfi laust fyrir kl. 21 í kvöld. Þá var farið að grennslast fyrir um bátinn.
Björgunarsveitir á Suðurnesjum voru á sjóbjörgunaræfingu ekki langt frá og fundu þær bátinn þar sem hann var nær sokkinn. Enginn var sjáanlegur við bátinn í fyrstu en síðar sá björgunarsveitarfólk tvo menn í grýttri fjörunni. Báturinn var mjög nálægt landi og náðu mennirnir að synda í land. Þeir höfðu verið við veiðar og er talið að þeir hafi ekki áttað sig á að þeir væri komnir svo nálægt landi. Þar sem slysið varð er bjargið hátt og bara hægt að komast að slysstaðnum frá sjó.
Þyrla Landhelgisgæslunnar kom á staðinn og tók mennina um borð og voru þeir fluttir til Reykjavíkur, blautir og kaldir. Þeir voru ómeiddir.
Björgunarsveitir reyndu að bjarga bátnum en á tólfta tímanum var ákveðið að reyna ekki björgun bátsins, sem talinn er ónýtur.
Björgunarsveitarfólk er nú í björgunarstöðinni í Reykjanesbæ að bera saman bækur sínar.
Meðfylgjandi myndir voru teknar fyrir Víkurfréttir á Vogastapa við slysstaðinn. VF-myndir: HH