Mannabreytingar í stjórn Kadeco
Ný stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, var skipuð á aðalfundi félagins í dag. Magnús Gunnarsson og Stefán Þórarinsson víkja sæti en Páll Sigurjónsson, stjórnarformaður Ístaks, og Reynir Ólafsson, endurskoðandi í Reykjanesbæ tóku sæti. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, situr áfram í stjórninni.
Varastjórn er skipuð þeim Hildi Árnadóttur, Sigurði Val Ásbjarnarsyni og Sveindísi Valdimarsdóttur.
Stjórnin mun skipta með sér störfum á næsta stjórnarfundi sem verður sennilega í næstu viku. Fastlega er gert ráð fyrir að Páll taki við sæti stjórnarformanns.
Á fundinum í dag kom fram að hagnaður félagsins nam á árinu 131 milljón króna eftir skatta. Heildareignir félagsins voru bókfærðar á 314 milljónir króna. Skuldir félagsins námu 252 milljónum króna og eigið fé félagsins nam 62 milljónum króna í árslok.
Starfsmenn félagsins eru fimm talsins.
Í frétt á vef Kadeco segir að markmið og tilgangur félagsins sé, sem fyrr, að leiða þróun og umbreytingu á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli til borgaralegra nota. Telur stjórnin að umbreytingarferlið hafi gengið vonum framar og búið sé að skapa sterkan grundvöll til frekari uppbyggingar.
Í því sambandi er minnst á menntastarfsemi Keilis, Tæknivelli sem Base stendur fyrir og gagnaver Verne, en margt fleira er á teikniborðinu hjá ÞK.
Í niðurlagi fréttarinnar á vef Kadeco segir: „Framtíðin er björt á starfssvæði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar þó svo vinnunni sé hvergi nærri lokið. Verkefni eru í stöðugri þróun og framboð af nýjum hugmyndum hefur ekkert minnkað. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar mun halda áfram á sömu braut; tækifærin eru fjölmörg og þau þarf að grípa og þróa áfram.“