Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Málverk af fyrstu hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps síðari að gjöf
Sylvía Magnúsdóttir kom fyrir hönd erfingja með málverkið sem varðveitt verður á Byggðasafni Reykjanesbæjar.
Fimmtudagur 25. júlí 2019 kl. 09:28

Málverk af fyrstu hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps síðari að gjöf

Reykjanesbæ barst í vikunni málverk að gjöf af fyrstu hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps eftir klofning frá Keflavíkurhreppi árið 1942. Gjöfin er frá erfingjum Magnúsar Magnússonar frá Höskuldarkoti í Njarðvík, en hann lést nýverið. Sylvía Magnúsdóttir kom fyrir hönd erfingja með málverkið sem varðveitt verður á Byggðasafni Reykjanesbæjar.

Málverkið er málað af Áka Gränz árið 1972. Í miðju er Karel Ögmundsson oddviti, ofan við hann eru Sigurður Guðmundsson og Bjarni Einarsson. Fyrir neðan eru Sigurgeir Guðmundsson og Magnús Ólafsson, sem var faðir Magnúsar Magnússonar. Í bakgrunni er hluti Njarðvíkurhrepps eins og hann leit út árið 1942.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflavíkurhreppur og Njarðvíkurhreppur voru sameinaðir árið 1908 og var Keflavíkurhreppur til ársins 1942. Í sögu Njarðvíkur eftir Kristján Sveinsson (1996) kemur fram að sú ákvörðun að skipta Keflavíkurhreppi í tvö sveitarfélög árið 1942, hafi átt rætur sínar að rekja til „óánægju Njarðvíkinga með hlut þeirra í sameiginlegum framkvæmdum í Keflavíkurhreppi. Einkum þótti Njarðvíkingum skorta á að hlutur þeirra í rafveitu og hafnarmálum væri nægilega góður“ (bls. 234). Þannig varð til Njarðvíkurhreppur seinni.

Fyrsta hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps seinni var kosin óhlutbundinni kosningu 15. mars 1942. Það þýðir að valið var á milli einstaklinga en ekki flokka. Fyrsti fundur hinnar nýju hreppsnefndar var 22. mars árið 1942.

Málverkið sýnir ábúðarfulla menn sem horfa ákveðnum augum á þann sem á horfir. Sylvía sagði málverkið hafa hangið upp í svefnherbergi í húsnæði Magnúsar í Hveragerði. Svo vænt þótti honum um það. Hún sagðist hins vegar aldrei hafa getað sofið undir þessum augnaráðum. Seinna hékk verkið í stofu á heimili pabba hennar í Reykjavík.