Málþing um svefn unglinga í dag
– Á skóladagur unglinga að byrja kl. 09 að morgni?
Keilir, Fræðsluskrifstofa Reykjanesbæjar og Hið ísl. svefnrannsóknafélag standa fyrir stuttu málþingi fimmudaginn 3. apríl kl. 16:30-17:30. Málþingið fer fram í húsnæði Íþróttaakademíunnar (Fimleikahöllinni) við Parísartorg í Reykjanesbæ og er öllum opið.
Björg Þorleifsdóttir, lektor, fjallar um svefn unglinga. Hjálmar Árnason segir af tilraun í Bandaríkjunum með að byrja skóla 25 mínútum seinna á morgnana og ber upp tillögu um að unglingadeildir á Reykjanesi og Fjölbrautaskóli Suðurnesja byrji skóladaginn kl. 09:00.
Þá verða rædd viðbrögð við tillögunni og til þess hafa verið fengin þau Kristján Pétur Ásmundsson skólameistari FS, Ingigerður Sæmundsdóttir frá FFGÍR, Elva Dögg Sigurðardóttir frá NFS, Magnea Ólafsdóttir kennari og Guðbjörg Sveinsdóttir aðstoðarskólastjóri.
Fundarstjóri er Erna Sif Arnardóttir, formaður Hins íslenska svefnrannsóknafélags. Allir eru velkomnir og unglingar, foreldrar og skólafólk hvatt til að mæta en gert er ráð fyrir að málþingið standi ekki lengur en í eina klukkustund.
Víkurfréttir ræddu við Hjálmar Árnason hjá Keili á Ásbrú sem hefur kynnt sér svefnvenjur unglinga og spurðu hann hvort íslenskir unglingar ættu þá að sofa til hádegis.
„Sérfræðingar mæla með því og þeir hreinlega hvetja til þess. Það er vísindalega sannað að unglingar þurfa átta til níu tíma svefn. Ef þeir ná honum ekki til lengri tíma þá getur það haft mjög alvarlega afleiðingar, bæði líkamlega, tilfinningalega og andlega, svo ég tali nú ekki um út frá sjónarhóli skólans. Illa sofinn unglingur er ekki mjög móttækilegur fyrir námi“.
- Eru íslenskir unglingar að ná 8-9 tíma svefni?
„Nei. Það er almennt vitað. Af hverju ná þeir ekki þessum svefntíma?, Jú, þeir sofa ekki nóg. Það sem rekur unglinga á fætur á morgnana er skólinn og almennt byrjar skólinn uppúr kl. 08. Ef krakkar eiga að vera komnir í skólann kl. 08 hressir og kátir, þá þarf að byrja að vekja þá uppúr kl. 07, svo þeir nái að klæða sig, borða morgunmat og bursta tennur og koma sér í skólann. Til þess að þetta gangi upp, þá þurfa unglingarnir að vera sofnaðir kl. 23 og komnir í rúmið hálftíma áður. Þá getum við spurt, eru íslenskir unglingar komnir í rúmið kl. 22:30. Svarið er nei“.
- Hvað er hægt að gera?
„Það er fullreynt að unglingarnir eru ekki að fara í rúmið kl. 22:30. Þrátt fyrir allt nöldur í áratugi, þá er það ekki að fara að gerast. Þá er það spurningin hvort hægt sé að byrja skólana seinna? Það hefur verið reynt, m.a. á Laugum í Þingeyjasýslum. Fyrrverandi skólameistari þar segir að það hafi verið allt annað líf fyrir nemendur og kennara. Þetta hefur einnig verið prófað í bandarískum skóla. Þar var byrjað kl. 08 og 18% unglinga náðu þessum lágmarkssvefni. Þar færðu þau upphaf skóladags til kl. 08:25. Eftir eina önn náðu 44% unglinga þessum rétta svefni. Við þurfum ekki að segja margt um hvaða jákvæðu afleiðingar það hefur.
Ofan á þetta bætist að þegar við ætlum að reyna að vekja unglingana okkar kl. 07 að morgni, þá er líkamsklukkan hér á norðurslóðum ekki nema 05:30 og skal þá engan undra að það sé meðvitundarleysi á meðal krakkanna. Út frá þessu stöndum við fyrir þessu málþingi með Reykjanesbæ og hinu Íslenska svefnrannsóknarfélagi. Tillagan er þar, að eigum við að byrja unglingadeildir grunnskóla og fjölbrautaskóla kl. 09 til þess að gera okkar til þess að unglingarnir nái þessum nauðsynlega svefni. Miðað við reynslu og það sem færustu sérfræðingar segja, þá er þetta eina vitið,“ segir Hjálmar Árnason hjá Keili.