Málefni Varnarliðsins til umræðu á Alþingi
Stöðugildum íslenskra starfsmanna Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hefur fækkað um 193 frá 1. janúar 2003 til 1. október 2004.
Þetta kom fram í svari Davíðs Oddssonar, utanríkisráðherra, við fyrirspurn Marðar Árnasonar á Alþingi í dag. Þar kom einnig fram að hermönnum á Keflavíkurflugvelli hafði á sama tímabili fækkað úr 1907 mönnum í 1554 eða um 353, og óbreyttum Bandaríkjamönnum hafi fækkað lítillega eða úr 111 í 104.
Nokkrir þingmenn stigu í pontu í kjölfar svara utanríkisráðherra. Jón Gunnarsson, þingmaður Samfylkingar í Suðurkjördæmi, og samflokksmaður hans Guðmundur Árni Stefánsson gagnrýndu stjórnvöld fyrir aðgerðarleysi í málefnum Varnarliðsins. Sýndist Jóni sem stjórnvöld hafi ekki vitað um niðurskurð Bandaríkjamanna og Guðmundur sagði að herinn væri hægt og hljótt að draga sig út úr landi án þess að stjórnvöld hafi nokkuð haft um það að segja. Ekki gengi að Bandaríkjamenn tækju einhliða ákvarðanir í varnarmálum Íslands og því þyrfti að ljúka varnarsamningum sem fyrst til að eyða óvissunni.
Böðvar Jónsson, Sjálfstæðisflokki, fagnaði væntanlegum fundi utanríkisráðherra með Colin Powell, hinum bandaríska starfsbróður sínum og ítrekaði hversu mikilvæg málefni Varnarliðsins væru í atvinnumálum Suðurnesja.
Mörður bætti því við að framvindan í þessum málum benti til þess að stjórnvöld vissu ekki í hvað stefndi. Varnarmál Íslands og samstarf við Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið þyrfti að skýra sem fyrst.
Davíð neitaði því að hann og forveri hans, Halldór Ásgrímsson, hefðu ekki staðið sig heldur hafi þeir þvert á móti fylgt því með mikilli einurð að gildi varnarsamnings verði í heiðri höfð. Ekkert væri athugavert við það að sumt í þessum viðkvæma málaflokki væri ekki blásið upp á opinberum vettvangi. Stjórnvöld ynnu að því að tryggja öryggi þegna landsins gegn utanaðkomandi vá líkt og þau hafi gert hingað til.