Málefni fatlaðra verði samtvinnuð annarri félagsþjónustu
Um næstu áramót færast málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna. Starfshópur hefur verið að störfum undanfarna mánuði og nú liggja fyrir tillögur hópsins sem m.a. ganga út á að Suðurnes verði eitt þjónustuvæði.
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga samþykkti á fundi sínum í gær að áfram verði unnið að yfirfærslunni í samræmi við fyrirliggjandi drög starfshópsins. Í bókun er áhersla lögð á að í áframhaldandi vinnu verði mótuð þjónusta sem vinni gegn aðgreiningu í samfélaginu þar sem notendur verði virkir mótendur þjónustunnar. Mikilvægt sé að málefni fatlaðra verði samtvinnuð annarri félagsþjónustu á svæðinu með dreifðri þjónustu, segir í bókuninni.
„Bæjarstjórn leggur áherslu á að vandað verði til móttöku starfsmanna frá ríkinu og lögð verði áhersla á gagnkvæma aðlögun. Bæjarstjórn samþykkir að Suðurnes verði eitt þjónustusvæði fyrir þjónustu við fatlað fólk og Reykjanesbæ verði falin umsýsla rekstrarsjóðs þar til tillögur um framtíðar skipulag og stjórn SSS liggja fyrir,“ segir ennfremur í bókuninni. Þá er þess getið að gæta þurfi þess að nægt fé fylgi málaflokknum frá ríkinu.