„Málaðar myndir af fólki“ í Suðsuðvestur
Laugardaginn 4. febrúar kl. 16:00 opnar Sigríður Ólafsdóttir sýningu í sýningarýminu Suðsuðvestur í Reykjanesbæ. Sýninguna nefnir Sigríður „Málaðar myndir af fólki.”
Með þeim titli vísar hún til hefðbundins uppruna myndanna í portreit málverkum. Fyrirmyndirnar eru fólk úr nánasta umhverfi listamannsins. Fjölskyldan, vinir og annað fólk sem Sigríður hefur samskipti við. Hún vinnur úr hverju viðfangsefni til þrautar og málar hverja fyrirmynd hvað eftir annað til að ná fram ákveðnu ferli þar sem nánd viðfangsefnisins víkur smám saman fyrir yfirborðinu, þeim formum og litum sem fyrirmyndin framkallaði. Við það opnast nýjar víddir og möguleikar í túlkun og framsetningu. Hver mynd leiðir til annarrar, hvert verk sprettur úr öðru. Með þessu móti losar listamaðurinn sig frá fyrirmyndinni og upp kemur spurningin hvort verkið komist frá uppruna sínum, manneskjunni sjálfri.
Þess má geta að Sigríður mun halda námskeið í málun á vegum Myndlistarskóla Reykjaness sem mun hefjast 6. mars. Nánari upplýsingar um námskeiðið er hægt að fá hjá Miðstöð símenntunar eða í síma 421 7500.
Suðsuðvestur er til húsa á Hafnargötu 22 í Reykjanesbæ. Þar er opið á fimmtudögum og föstudögum frá 16:00 til 18:00. og um helgar frá 14:00. til 17:00. Hægt er að fá nánari upplýsingar á www.sudsudvestur.is
Af vef Reykjanesbæjar