Makrílveiðar í brælu
Það er orðið ansi tómlegt um að litast í slippnum í Njarðvík núna. Bátaflotinn sem var þar í júlí og fram í ágúst er svo til allur farinn á sjó nema Sævík GK sem er í lengingu inni í húsinu. Tjaldur SH sem var þar í slippnum er kominn á veiðar og búinn að landa 106 tonnum í þremur róðrum,
Egill SH er nýkominn á flot og mun hefja veiðar 1. september. Og vorboðinn ljúfi, Steinunn SH, er líka kominn á veiðar og hefur landað 22 tonnum í tveimur róðrum.
Egill SH og Steinunn SH eru báðir á dragnót, í Sandgerði eru einnig Siggi Bjarna GK og Benni Sæm GK komnir á veiðar og hefur Benni Sæm GK landað 42 tonn í sjö róðrum og Siggi Bjarna GK 61 tonn í sjö og mest 13,1 tonn. Aðalbjörg RE er líka kominn á veiðar og landar í Sandgerði og hefur landað þar 23 tonn í fjórum róðrum og mest 8,8 tonn.
Makrílveiðar hjá handfærabátum hafa verið erfiðar núna seinnipartinn í ágúst því veður hefur verið mjög slæm en bátarnir hafa þó náð að kroppa upp smá slöttum, t.d var ansi forvitnilegt að sjá um daginn í einni brælunni fjóra báta; Stakastein GK, Söru GK, Margréti SU og Ragnar Alfreðs SH liggja fremst við bryggjuna í Keflavik, bundna þar við bryggju með stefnið að bryggjunni og voru að veiða þar. Náðu allir í kringum einu tonni af makríl hver bátur.
Og það má geta þess að ég fór á bryggjuna í Keflavík og bjó til smá myndband sem hægt er að sjá með því að fara inn á www.youtube.com inn á rás sem heitir Icelandlukka og þar er myndband sem heitir „Makrílveiðar í brælu – Fishing Mackerel“. Endilega ýtið þar á áskrift inn á rásinni Icelandlukka.
Alla vega af aflatölum bátanna: Guðrún Petrína GK hefur fiskað ansi vel og er kominn með 97,5 tonn í sautján róðrum og mest 8,8 tonn. Addi Afi GK 87 tonn í sextán. Hlöddi VE 37 tonn í tólf. Tjúlla GK 22 tonn í átta. Halla Daníelsdóttir RE 18,8 tonn í tólf. Votaberg KE 9,1 tonn í sex. Siggi Bessa SF 80 tonn í tíu og mest 13,8 tonn. Fjóla GK 70 tonn í fjórtán. Bergvík GK 60,5 tonn í fimmtán. Ragnar Alfreðs GK 53 tonn í tíu. Dögg SU 50 tonn í níu. Nanna Ósk II ÞH 46 tonn í átta. Gulltoppur GK 42 tonn í sjö. Bergur Vigfús GK 10,2 tonn í níu. Margrét SU 9,5 tonn í fjórum. Linda GK 18 tonn í tólf. Andri SH 6,4 tonn í fjórum. Stakasteinn GK 4,3 tonn í þremur.
Allt eru þetta bátar sem að mestu hafa landað í Keflavík þótt að nokkrir hafa komið til Sandgerðis til löndunar.
Netabátarnir eru farnir að sigla út á sjó og eru nokkrir þeirra í Sandgerði og hafa fiskað vel. Hraunsvík GK er með 16,2 tonn í ellefu og mest 5,4 tonn. Sunna Líf GK 5 tonn í níu og er mest af því skötuselur. Garpur RE 2,4 tonn í tveimur af skötuseli. Maron GK 51 tonn í sextán og búinn að landa víða, Njarðvík, Grindavík, Þorlákshöfn, Grímsnes GK er í Þorlákshöfn og er að eltast eins og vanalega við ufsann og hefur landað 76 tonnum í sjö róðrum og af því þá er ufsi um 69 tonn.
Nesfiskstogarnir eru á rækju fyrir norðan land og hefur veiðin hjá þeim gengið þokkalega. Sóley Sigurjóns GK komin með 82 tonn í tveimur og af því er rækja 43 tonn. Berglín GK 55 tonn í tveimur og er rækja af því aðeins 17,4 tonn. Rækjan af báðum skipunum fer til vinnslu á Hvammstanga en öllum bolfiskinum er ekið til vinnslu í Garð og Sandgerði, t.d fer ufsi, karfi, ýsa og þorskur inn í Nesfisk í Garði en hlýri og grálúða í fiskverkuna Ásberg sem er í Sandgerði og er þar í húsnæði sem áður hýsti stórfyrirtækið Miðnes hf.
Gísli Reynisson
aflafrettir.is