Makrílbátar á leið í land og veiðar að stöðvast
-Ástæðan er sölutregða á mörkuðum
„Ég er bara í þessum töluðu orðum að kalla bátana okkar inn og stöðva makrílveiðarnar, segir Guðmundur J. Guðmundsson hjá Saltver í Njarðvík. Innflutningsbann á makríl í Nígeríu kemur á versta tíma, að sögn Guðmundar, þar sem júlímánuður hefur einmitt verið góður mánuður varðandi sölu á makríl þangað.
Eins og fram hefur komið í fréttum þá hafa stjórnvöld í Nígeriu sett á innflutningsbann á makríl sem ásamt erfiðu ástandi á Rússlandsmarkaði, hefur sett alla veiði og vinnslu á makríl í mikla óvissu. „Við unnum 1500 tonn af makríl á síðustu vertíð og stefndum að því að vinna allt að þrjú þúsund tonnum á þessari vertíð. Þessi sölutregða sem við stöndum nú frammi fyrir hefur gert það að verkum að ólíklegt er að þau markmið náist,“ sagði Guðmundur og bætti við að staðan á mörkuðum væri mjög alvarleg.
Guðmundur sagði að vinnslan hjá þeim hefði byrjað um síðustu helgi og að stefnt hefði verið að því að vinna makríl fram í september. Unnið hefur verið allan sólarhringinn á tveimur tólf tíma vöktum í Saltver. Eftir að makrílnum er landað er hann flokkaður og viktaður í verksmiðju í Helguvík og síðan er hann pakkaður og frystur heill í 10 kg pakkningum hjá Saltver í Njarðvík „Við erum núna næstu daga að vinna makríl í verktöku fyrir Samherja en þegar því er lokið mun vinnsla stöðvast þar til eftir verslunarmannahelgi. Þá er makríllinn líka verðmætari þar sem hann væri laus við átu og fitumeiri en hann er núna. Vonandi verður þá eitthvað búið að rætast úr sölumálum,“ sagði Guðmundur að lokum.