Magnús Stefánsson ráðinn bæjarstjóri
– í Sveitarfélaginu Garði næstu 4 árin
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs hefur samþykkt samhljóða að ráða Magnús Stefánsson sem bæjarstjóra Garðs og gildir ráðningin fyrir kjörtímabilið 2014 til 2018, með þeim fyrirvara að ef honum verður sagt upp áður en kjörtímabilinu lýkur fái hann laun í sex mánuði.
Einari Jóni Pálssyni, forseta bæjarstjórnar, hefur verið falið að gera ráðningarsamning við bæjarstjóra sem verður lagður fyrir bæjarráð og staðfestur af bæjarstjórn.
Magnús var ráðinn sem bæjarstjóri í Garði á nýliðnu kjörtímabili eftir að meirihluti sjálfstæðismanna klofnaði og Ásmundi Friðrikssyni var sagt upp starfi bæjarstjóra.