Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Magnús býður sig fram í 3. sæti í Suðurkjördæmi
Fimmtudagur 4. október 2012 kl. 14:56

Magnús býður sig fram í 3. sæti í Suðurkjördæmi

Undirritaður, Magnús B. Jóhannesson, lýsi hér með yfir framboði mínu til Alþingiskosninga fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi fyrir komandi kosningar.

Ég lauk meistaranámi í rekstrarhagfræði og stjórnun frá Álaborgarháskóla árið 2002 og hef starfað sem stjórnandi í atvinnulífinu í um 20 ár. Undanfarin fjögur ár hef ég starfað sem framkvæmdastjóri hjá America Renewables í Kaliforníu, við þróun umhverfisvænnar orku.

Ástæða þess að ég býð fram krafta mína nú er að ég hef trú á að hægt sé að gera Ísland að samfélagi sem öfund er af. Tækifærin hafa verið illa nýtt undanfarin ár sem lýsir sér meðal annars í fjölda brottfluttra (tæplega 35 þúsund frá 2008). Tími er til kominn að breyta stefnunni þannig að almenningi sé gefið tækifæri á að skapa sér og sínum nánustu bjarta framtíð í gróskumiklu og heiðarlegu umhverfi, í landi tækifæranna.

Oft hefur mér fundist skorta á gagnsæi þegar kemur að vali á lista stjórnmálaflokka því oft kemur ekki fram hvar frambjóðendur standa gagnvart ýmsum málum. Í því samhengi hef ég ákveðið að setja fram þau mál sem ég vil leggja megináherslu á í þeirri kosningabaráttu sem framundan er:


1. Auka atvinnu
Mikilvægt er að stjórnvöld láti af stöðugum árásum á helstu atvinnugreinar þessa lands því slík aðför skapar rekstraróvissu sem dregur viljann úr þeim til fjárfestinga og atvinnusköpunar.
Snúa verður við þeirri öfugþróun að vinnuafli fækki ár frá ári, hvort heldur það er vegna brottflutnings frá landinu eða bótaþegum sé ýtt yfir á sveitarfélög eða inn í skólana.

2. Lækka skatta
Óeðlilegt verður að teljast að hlutfall skattheimtu landsmanna sé orðið um 42% af vergri landsframleiðslu. Þoka verður þessu hlutfalli nær 25%.
Forgangsraða verkefnum þannig að gæða grunnþjónusta sé tryggð en ekki eins og nú er að beitt sé flötum niðurskurði sem veikir alla þjónustu.

3. Afnema verðtryggingu
Þó einhverjir gætu haldið því fram að slíkt hafi þegar verið gert með auknu framboði lánastofnana á óverðtryggðum lánum þá er ekki á vísann að róa með framboð til lengri tíma og veruleg hætta er á að framboð leggist af. Afnema verður verðtryggingu með lögum.
Til marks um að lítið hefur gerst í þessum málaflokki er að enn þann dag í dag býður Íbúðalánasjóður einungis verðtryggð lán.

4. Skuldaleiðrétting og lyklalögin
Flýta þarf dómum um lögmæti húsnæðislána og höggva þannig á þá réttaróvissu sem nú ríkir.
Samþykkja á hin svonefndu lyklalög hið fyrsta enda er það sanngjörn krafa að skuldir séu einungis tryggðar með því veði sem fyrir liggur en ekki öllum eigum lántaka.

5. Greiða niður skuldir ríkissjóðs
Veruleg ógn steðjar að landinu með gífurlegri skuldasöfnun ríkissjóðs undanfarin ár. Kreppa í Evrópu mun þrengja enn frekar að efnahag landsins og núverandi ríkisstjórn hefur ekkert gert til að undirbúa landið gegn þeirri ógn.
Mjög háar vaxtagreiðslur takmarka verulega getu ríkissjóðs til að sinna lágmarks grunnþjónustu sem nauðsynleg er s.s. löggæslu, menntun og heilbrigðisþjónustu.
Algerlega óásættanlegt er að senda reikninginn fyrir halla fjárlaga til barnanna okkar og komandi kynslóða vegna getuleysis stjórnvalda til að reka ríkissjóð hallalausan.

6. Þyngja fangelsisdóma og opinberar upplýsingar um kynferðisafbrotamenn
Síbrotamenn hafa dómskerfið að athlægi með endurteknum brotum. Kominn er tími til að senda slíkum aðilum skýr skilaboð um að slík hegðun verður ekki lengur liðin. Setja upp 7/10 regluna, þ.e. eftir sjöunda dóminn fær viðkomandi síbrotamaður sjálfkrafa 10 ára óskilorðsbundið fangelsi.
Birta opinberlega upplýsingar um kynferðisafbrotamenn svo almennir borgarar geti haft varann á sér í umgengni við þá.

7. Breyta stjórnarskrá til að vernda borgarana gegn rekstraróráðssíu hins opinbera.
Stjórnarskrárbinda ákvæði um hámarksskuldsetningu hins opinbera og hallalaus fjárlög.
Líkt og stjórnvöld setja kröfur á borgara þessa lands þá er eðlilegt að borgararnir geri kröfur til sjórnvalda um að ríkissjóður sé vel rekinn.

8. Draga til baka umsókn Íslands um inngöngu í ESB
Ísland er í aðlögunarferli en ekki samningsferli þar sem tveir jafnréttháir aðilar takast á og niðurstaðan getur fallið á hvorn veginn sem er.  
Evran mun auka á vandamál landsins því núverandi vandamál Evrunnar eru m.a. fólgin í takmörkun þjóða til að leiðrétta samkeppnishæfni sína. Slíkt getur valdið miklum og langtíma viðskiptahalla hjá ýmsum aðildarríkjum sem getur endað í gjaldþroti, samanber Grikkland og Spánn.
Leiðrétting á samkeppnishæfni í gegnum gengisbreytingar leiðréttir framleiðslukostnað með því að skerða laun allra landsmanna jafnt. Að öðrum kosti þyrfti að leiðrétta slíkt með handafli líkt og reynt hefur verið að gera í Grikklandi þar sem verkalýðshreyfingin hefur brugðist hart við. Gengisleiðrétting er því í raun sanngjarnari og jafnframt auðveldari í framkvæmd heldur en leiðrétting með handafli.
Ísland fær engar varanlegar undanþágur eins og utanríkisráðherra viðurkenndi í ræðu á 137. Löggjafarþingi, 45. Fundur, 38 mál, 16 júlí 2009, kl. 10.01.  


Í gegnum tíðina hef ég tekið virkan þátt í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins m.a. sem kosningastjóri tveggja bæjarstjórnakosninga og Alþingiskosninga. Jafnframt hef ég gegnt ýmsum trúnaðarstöðum innan flokksins s.s. formaður Sjálfstæðisfélags Keflavíkur, varaformaður stjórnar fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Keflavík, varaformaður og gjaldkeri Félags Ungra Sjálfstæðismanna í Keflavík og gjaldkeri Félags Ungra Sjálfstæðismanna á Akureyri.
Undanfarin ár hef ég tekið þátt í samfélagslegri umræðu í gegnum blogg vefinn  mbj.blog.is. Nánari upplýsingar um framboð mitt er að finna á fésbókasíðunni

facebook.com/pages/Magnús-B-Jóhannesson/540123242669888
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024