Magma stofnar dótturfyrirtæki á Íslandi - Ásgeir Margeirsson ráðinn forstjóri
Kanadíska jarðhitafyrirtækið Magma Energy Corporation, sem á 40,94% hlut í HS Orku í gegnum dótturfyrirtæki sitt Magma Energy Sweden AB, hefur sett á stofn dótturfyrirtæki hér á landi, Magma Energy Iceland ehf. Magma er ennfremur með samning um kaup á 2,16% hlut í HS Orku til viðbótar sem búist er við að ljúki í mars 2010. Magma Energy Iceland ehf. er til húsa í Reykjanesbæ og hefur Ásgeir Margeirsson, sem áður stýrði Geysi Green Energy, verið ráðinn forstjóri hins nýja félags. Nokkrir af fyrrum starfsmönnum Geysis hafa og verið ráðnir til Magma Energy Iceland ehf.
„Með stofnun dótturfyrirtækis á Íslandi vill Magma undirstrika mikilvægi Íslands í uppbyggingu félagsins á alþjóðavísu og fylgja eftir fjárfestingum sínum hér á landi, til að styðja við starfsemi og uppbyggingu HS Orku“ segir Ásgeir Margeirsson. „Við höfum leigt húsnæði að Hafnargötu 62 í Reykjanesbæ og erum að koma okkur þar fyrir. Auk þess að vinna að verkefnum hér á landi munu starfsmenn Magma á Íslandi koma að jarðhitaverkefnum Magma víða um heim. Hér skapast því nýtt tækifæri fyrir íslenska jarðhitasérfræðinga til þátttöku í verkefnum erlendis.“
Vetrarólympíuleikarnir 2010 verða haldnir í Vancouver í Kanada 12.-28. febrúar nk. en Magma Energy er með höfuðstöðvar í þeirri borg. Er Magma einn styrktaraðila Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands vegna leikanna og mun fyrirtækið greiða götu íslenska ólympíuliðsins þar vestra meðan á leikunum stendur.
Magma Energy er kanadískt jarðhitafyrirtæki sem vinnur að þróun og uppbyggingu jarðvarmavirkjana víða um heim, m.a. á Íslandi, í Bandaríkjunum, Chile og Perú. Magma er almenningshlutafélag, skráð á hlutabréfamarkað í Toronto í Kanada. Stofnandi Magma og forstjóri er Ross J. Beaty jarðfræðingur. Hann er varaformaður stjórnar HS Orku.