Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mælingar á mengun á vegum kísilveranna
Föstudagur 4. desember 2015 kl. 07:00

Mælingar á mengun á vegum kísilveranna

- Reykjanesbær hefur farið fram á að vera virkur aðili í eftirliti á mengunarvöktun

Mælingar á útblæstri frá kísilverum í Helguvík verður skipulögð af fyrirtækjunum sjálfum. Fyrirtækin velja eftirlitsaðila sem Umhverfisstofnun þarf svo að samþykkja. Þetta kemur fram í skriflegu svari frá Reykjanesbæ við fyrirspurn Víkurfrétta um tilhögun mælinga í Helguvík. Starfsleyfi veranna eru háð vöktunaráætlunum sem fyrirtækin sjálf leggja til. Í þeim er tiltekið hver muni sjá um mælingarnar. Umhverfisstofnun þarf svo að samþykkja vöktunaráætlunina og þar með þá aðila sem sjá um vöktunina. Kísilverin sjálf greiða svo fyrir vöktunina. Auk þessara mælinga mun Umhverfisstofnun framkvæma skyndimælingar þar sem mætt er óvænt í fyrirtækið og mælingar framkvæmdar. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja mun einnig hafa eftirlit með útblæstri kísilveranna. Ekki hefur verið ákveðið hvort Reykjanesbær verði með sérstakar mælingar en samkvæmt upplýsingum frá bænum er það í skoðun.
 
Vöktunaráætlun United Silicon er nú í endurskoðun hjá Umhverfisstofnun sem hefur óskað eftir frekari gögnum. Vöktunaráætlun Thorsil er ekki tilbúin. Farið hefur verið fram á sameiginlega vöktunaráætlun allra verksmiðjanna í Helguvík, það er kísilveranna tveggja og álvers ef af byggingu þess verður. Vöktunaráætlanirnar verða opinber gögn og aðgengileg á síðu Umhverfisstofnunar. 
 
Ragnheiður Þorgrímsdóttir, bóndi á bænum Kúludalsá í Hvalfjarðarsveit, hefur í mörg ár barist fyrir því að mælingar á mengun frá stóriðju þar séu í höndum óháðra aðila. Hún sat í pallborði á íbúafundi um deiliskipulagsbreytingu og íbúakosningu vegna hennar í Reykjanesbæ á dögunum.  „Ég vil vara bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ við því að treysta Umhverfisstofnun og öðrum eftirlitsstofnunum fyrir framtíð bæjarbúa. Bæjarfulltrúar virðast halda að iðjuver í Reykjanesbæ muni þurfa að lúta strangara eftirliti vegna mengunar en á Grundartanga. Umhverfisstofnun er nýbúin að senda frá sér tillögu að nýju starfsleyfi fyrir Norðurál á Grundartanga og þar er allt utanumhald vegna mengunarmælinga lagt í hendur iðjuversins,“ segir hún. Ragnheiður segir mikilvægt að íbúar Reykjanesbæjar þekki og geti tekið mið af reynslu annarra af stóriðju.
 
Fjallað var um umhverfisáhrif Norðuráls á Grundartanga í Stundinni 7. nóvember síðastliðinn. Þar kemur fram að í starfsleyfi Norðuráls sé kveðið á um að fyrirtækið sjái sjálft um vöktun og rannsóknir á umhverfisáhrifum sínum og leggi til hvernig sú vinna fari fram. Íbúar á svæðinu hafa lengi gagnrýnt fyrirkomulagið og hefur sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar nú tekið undir þá gagnrýni. Krafa þeirra er samhljóða; að óháðir aðilar haldi alfarið utan um mælingar vegna umhverfisvöktunar. Útblástur frá álverinu á Grundartanga á öðru en brennisteinstvíoxíði og brennisteinsvetni, er aðeins mældur í sex mánuði á ári, frá apríl og fram í október utan þynningarsvæðanna. Á næstunni verður starfsleyfi Norðuráls endurnýjað og hefur sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar krafist þess að mælingar flúors fari fram allt árið. 
 
Árið 2006 slapp mikið magn eiturefna úr álveri Norðuráls á Grundartanga og frétti Ragnheiður ekki af því fyrr en um 18 mánuðum síðar, fyrir tilviljun í spjalli við dýralækni. „Það var enginn á svæðinu látinn vita. Umhverfisstofnun þagði yfir þessu,“ segir hún. Þau svör fengust frá Reykjanesbæ að þar verði mælingar allt árið og er gert ráð fyrir að hægt verði að fylgjast með stöðunni á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Reykjanesbær hefur farið fram á að vera virkur aðili í eftirliti á vöktuninni og verður ásamt kísilverunum og Umhverfisstofnun í samráðshóp þar sem farið er yfir niðurstöður mælinga. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa farið fram á að fá að vita ef mengunaróhöpp verða.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024