Mældi sprungur og fann sex dróna á Gónhóli
Fjölmargir töpuðu drónum við eldgosið í Fagradalsfjalli sem stóð í hálft ár frá 19. mars til 18. september á síðasta ári. Sögusagnir eru um að hundruð dróna hafi farið í gíginn eða tapast í glóandi hrauninu þá mánuði sem gosið stóð yfir.
Vísindamaður sem fór á dögunum til að mæla sprungur á stað sem kallaður hefur verið Gónhóll við eldgíginn í Fagradalsfjalli fann sex dróna á svæðinu, að því er Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði, upplýsti á fundi í menningarhúsinu Kvikunni í Grindavík í vikunni í tilefni af því að ár er liðið frá því eldsumbrot hófust í fjallinu. Má því segja að Gónhóll sé grafreitur margra dróna eða flygilda.
Rætt verður við Magnús Tuma í Víkurfréttum og Suðurnesjamagasíni í næstu viku.