Mæla loftgæði á heimili í Reykjanesbæ
— þar sem lyktar frá verksmiðju United Silicon hefur orðið vart
Norska loftrannsóknarstofnunin NILU sinnir nú mælingum á loftgæðum inni í verksmiðju United Silicon í Helguvík og í nágrenni hennar, þar á meðal á heimili einu í Reykjanesbæ, þar sem lyktar hefur orðið vart. Þetta kemur fram í tilkynningu frá United Silicon.
Markmið mælinga er að fá óyggjandi vissu um hvaða efni geti borist frá verksmiðjunni við ólíkar aðstæður og í hvaða magni, svo unnt sé að grípa til viðeigandi aðgerða í framhaldinu.
United Silicon vinnur nú eftir úrbótaáætlun norska ráðgjafarfyrirtæksisns Multikonsult sem tók út verksmiðjuna í kjölfar stöðvunarinnar þann 18. apríl sl. og sérfræðingar norska fyrirtækisins starfa enn með United Silicon og munu vera til staðar í Helguvík, þar til starfsemin er komin í fullan gang.
Úttekt á öllum rekstrarþáttum fer fram með ofninn í rekstri en gert er ráð fyrir að það geti tekið allt að þremur vikum að ná upp fullum afköstum og stöðugum rekstri ofnsins. Á þeim tíma gæti lykt borist frá starfseminni þó að reynt sé eftir fremsta megni að takmarka hana eins og kostur er.