Mæðgin í 1. og 3. sæti Pírata í Reykjanesbæ
Þórólfur Júlían Dagsson er í fyrsta sæti á lista Pírata fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í Reykjanesbæ í vor en framboðið stóð fyrir prófkjöri sem lauk nýlega en þátttakendur voru fimm.
Í 2. sæti á eftir Þórólfi kemur Hrafnkell Brimar Hallmundsson, í þriðja sæti er móðir Þórólfs, Margrét Sigrún Þórólfsdóttir, í fjórða sæti er Guðmundur Arnar Guðmundsson og í fimmta sæti er Jón Páll Garðarsson. Þau hafa öll samþykkt að taka þau sæti sem Píratar kusu þau í og munu því skipa fimm efstu sæti listans.
Nú fer í hönd vinna við að velja úr þeim fjölda sem boðist hefur til að skipa önnur sæti listans og verður listinn í heild kynntur eftir páska. Píratar hafa opnað kosningaskrifstofu á Ábrú, segir í frétt frá Pírötum.