Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Maður tekur enga áhættu við aðstæður sem þessar“
Mánudagur 20. desember 2004 kl. 15:45

„Maður tekur enga áhættu við aðstæður sem þessar“

„Það fór reim á kælibúnaði og alternator bátsins og við vorum það stutt frá landi að maður tekur enga áhættu. Maður kallar á björgun við slíkar aðstæður,“ segir Sigvaldi Hólmgrímsson skipstjóri á Sigurvin SH-119 sem varð vélarvana rúma hálfa sjómílu vestur af Reykjanestá í dag. Að sögn Hólmgríms var leiðindaveður á svæðinu, ölduhæð 3-4 metrar og töluverður vindur.
Sigvaldi segist ekki hafa viljað taka neina áhættu. „Ég er með fjóra menn um borð og maður tekur enga áhættu. Ég var samt rólegur því ég er með tvö ankeri um borð, auk netatrossa sem ég hefði getað hent út til að stöðva rekið á bátnum,“ segir Sigvaldi en engin bátur var nálægur. Þegar Víkurfréttir náðu sambandi við Sigvalda var hann að leggja netin og sagði allt rólegt um borð. „Það var bara ótrúlegt að sjá hvað björgunarsveitirnar voru snöggar af stað. Vélstjórinn var rétt kominn niður í vél þegar sveitirnar voru lagðar af stað.“

Tilkynning frá Landhelgisgæslunni um atvikið:
Dragnótarbáturinn Sigurvin SH-119 varð vélarvana 0.6 sjómílur vestur af Reykjanesi um kl. 13:55 í dag.  Um borð voru fjórir menn og hafði skipstjórinn samband við Reykjavíkurradíó og óskaði eftir aðstoð. Þyrla Landhelgisgæslunnar og þyrlur Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli voru þegar kallaðar út ásamt björgunarskipum Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.  Varðskipið Týr var einnig nærstatt og hélt þegar í átt til Sigurvins, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LIF, fór í loftið kl. 14:19 og var að koma á svæðið þegar skipstjóri Sigurvins tilkynnti að tekist hefði að koma vélinni í gang.  Það var um kl. 14:30.  Aðstoðarbeiðni var þá afturkölluð og hættuástandi aflýst.


Myndin: Sigurvin SH-119 skammt frá landi í dag þegar hann varð vélarvana. VF-ljósmynd/Atli Már Gylfason.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024