Maður slasaðist um borð í Júpíter ÞH 61 í nótt í Grindavíkurhöfn
Maður slasaðist um borð í Júpíter ÞH 61 í nótt í Grindavíkurhöfn. Maðurinn var að vinna við að þrífa skiljur á dekki bátsins með háþrýstidælu sem var tengd við dráttarvél. Ekki vildi betur til en svo að maðurinn missti háþrýstibununa á vinstri fótinn á sér með þeim afleiðingum að hann slasaðist á fætinum. Farið var með manninn á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja í Keflavík. Að sögn Þorvaldar Benediktssonar, varðstjóra hjá Lögreglunni í Keflavík, var um minniháttar meiðsli að ræða og voru saumuð nokkur spor í vinstri stórutá mannsins. Að því loknu fór maðurinn aftur um borð í Júpíter ÞH 61 í Grindavíkurhöfn.