Maður sást hlaupa frá brennandi húsinu
„Ég var inni í stofu heima hjá mér og var að horfa á sjónvarpið þegar ég byrja að finna brunalykt. Fyrst hélt ég að sjónvarpið hjá mér væri að gefa sig og slökkti á því. Ég fór síðan út í glugga og sá þá hvar mikill eldur var í húsinu. Þá fór ég út og fljótlega eftir að slökkviliðið kom urðu þessar svakalegu flugeldasprengingar,“ segir Guðmundur Björgvinsson íbúi í Njarðvík, en hann var einn sá fyrsti sem kom á staðinn.
Guðmundur segir að maður hafi sést hlaupa frá brennandi húsinu. „Það sást maður hlaupa frá húsinu og hann hljóp inn í Njarðvíkurnar og bókstaflega hvarf í reykjarkófið. Maður er náttúrulega í hálfgerðu sjokki yfir þessu, enda býr maður hérna rétt hjá.“
Myndir: Guðmundur Björgvinsson íbúi í nágrenni við brunastaðinn, en hann var einn sá fyrsti sem kom á staðinn. VF-ljósmyndir/Hilmar Bragi Bárðarson.