Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Maður ársins 2004: Umhverfið ævistarf Tómasar
Fimmtudagur 20. janúar 2005 kl. 12:12

Maður ársins 2004: Umhverfið ævistarf Tómasar

Tómas J. Knútsson kafari hefur ákveðið að gera umhverfismál að ævistarfi sínu. Síðustu 10 ár hefur Tómas J. Knútsson unnið mikið starf við hreinsun strandlengjunnar á Reykjanesi og hann er stofnandi Bláa hersins. Frá stofnun hefur Blái herinn hreinsað um 40 tonn af rusli úr sjónum. Tómas eða Tommi eins og hann er jafnan kallaður hefur ákveðið að gera hreinsun umhverfisins að ævistarfi sínu. Hann segir það köllun sína og að honum hafi verið ætlað þetta hlutverk. Tómas J. Knútsson formaður Bláa hersins er maður ársins 2004 á Suðurnesjum að mati Víkurfrétta.

Tommi hefur um árabil rekið Sportköfunarskóla Íslands og hefur hann komið upp stórskemmtilegri aðstöðu í Grófinni. Mikil vinna hefur verið lögð í húsnæðið og segir Tommi að aðkoman hafi ekki verið glæsileg. „Lyktin hér var skelfileg og það var gjörsamlega allt í rúst. En ef maður ætlar sér eitthvað þá tekst manni það og húsnæðið er orðið nokkuð gott núna," segir Tommi en hann ætlar sér að gera meira. „Ég hef áhuga á því að gera upp þann hluta hússins sem siglingaklúbburinn er með því hann mun flytja inn á Fitjar fljótlega. Á enda hússins sem snýr að DUUS húsum langar mig að koma upp 10 þúsund lítra fiskabúri með því að saga í vegginn á húsinu."

Hefur kafað frá 16 ára aldri
Sportköfunin hefur fylgt Tomma frá því hann var 16 ára gamall og hefur það verið hans helsta áhugamál frá þeim tíma. Hann er einn reyndasti kafari landsins og kom meðal annars að leitinni á Geirfinni Einarssyni í Keflavík árið 1974. En hvað finnur Tommi í köfuninni? „Með köfuninni færðu aðgang að mikið stærri heimi en á þurru landi. Lífríkið og nálægðin við þennan hljóða heim er ofsalega gefandi. Ég tala nú ekki um eftir að ég kynntist því að kenna hvað það er gefandi að kynna fólki þennan heim og sjá gleðisvipinn á þeim þegar þau koma uppúr. Það er alltaf jafn gaman að sjá þegar þau upplifa fyrstu köfunina og jafnvel litlir smákrabbar, sandsíli eða ígulker er í þeirra augum eitthvað svo framandi og nýtt að þau stoppa ekki að blaðra um það. Það er ofsalega gefandi," segir Tommi brosandi.

Yfir 80 rafgeymar úr sjónum
Sportköfunarklúbburinn var stofnaður 1. apríl 1998 og segir Tommi að þessi dagur hafi verið valinn til að fullvissa fólk um að þetta væri gert í fullri alvöru. Þessi klúbbur fékk vinnuheitið Blái herinn í kjölfarið á hræðilegu slysi í kennslu hjá Tomma þegar vinur hans Rúnar Bárður Ólafsson drukknaði í Garðinum 1998. „Vegna dauða hans varð ég heltekinn af því að berjast fyrir hafið. Ég var búinn að vera að upplifa ömurlegan umgang við hafið og meðal annars séð vörubíla sturta rusli í sjóinn við Gerðabryggju," segir Tommi og horfir út á smábátahöfnina. „Vissir þú að Blái herinn hefur hreinsað úr hafinu yfir 80 rafgeyma sem einhverjir losuðu sig við á ódýran máta. Ekki löbbuðu þeir sér þangað og stungu sér til sunds, það er alveg á hreinu. Í sorgarferlinu fullmótaðist hugmyndin um baráttu mína fyrir hafið og ég tileinka þessa baráttu honum Rúnari. Ég veit að Rúnar fylgist vel með og hann passar skólann- ég finn oft fyrir honum. Nemendur skólans eru Blái herinn en hann er öllum opinn sem  vilja þrífa ofansjávar og taka þar til hendinni því ekki veitir af," segir Tommi brosandi. Þegar hann er spurður hvaðan nafnið er tilkomið svarar hann. „Þegar ég var í sorgarferlinu vegna andláts Rúnars þá fór ég upp í sumarbústað til að hvíla mig og hugsa. Ég fór oft í göngutúra og eftir einn slíkan lagði ég mig og mig dreymdi draum. Þegar ég vaknaði mundi ég allt sem hafði komið fram í þessum draumi. Þar stóð bara mjög sterkt: Blái herinn hreinsar hafið. Og þaðan kemur nafnið."

Starfið köllun
Trúin spilar stórt hlutverk í lífi Tomma og hann segist fara með bænirnar reglulega. Eitt sinn þegar Tommi var staddur á Flúðum ákvað hann að keyra í Skálholt þar sem hann ætlaði að biðja almættið um kraft og styrk. „Þegar ég kom í Skálholt var kílómetrastaðan á bílnum 220357 en þetta er nákvæmlega fæðingardagur minn og ár - 22. mars 1957. Ég tel þessi skilaboð ákveðna köllun fyrir mig. Ég er alveg á því að það sé verið að leiðbeina mér að vinna að þessu máli og ég er alveg sannfærður um að íslenska þjóðin getur alveg lifað í sátt og samlyndi við að hafa mig bendandi mönnum á það sem miður hefur farið í umhverfismálum," segir Tommi einbeittur á svip.

Fiskur með fóðurbragði
Um árabil starfaði Tommi við fiskeldi og hann segist ekki hafa verið lengi að átta sig á því að sú starfsgrein passi ekki inn í lífkeðjuna á Íslandi. Hann snerist algerlega á móti því. „Það fer mikið af fóðri í hafið þar sem kvíarnar eru og nytjafiskarnir okkar, þorskur, ýsa og ufsi hanga utan á búrunum til að ná í fóður. Við veiddum okkur stundum í soðið ekki langt frá kvíunum en það kom að því að við gátum ekki borðað fiskinn því ýsan var alveg óæt út af fóðurbragði. Þeir sem eru með fiskeldið í Mjóafirðinum dæla þúsundum tonna af fóðri í kvíarnar og menga um leið okkar fersku sjávarafurðir sem trillusjómennirnir veiða," segir Tommi og bætir við að afurðirnar séu síðan seldar erlendis og þá undir þeim formerkjum að þær séu ekki úr menguðu hafi. „Hvað komast Íslendingar upp með þetta lengi" spyr Tommi.

En eru það mörg umhverfisverkefni sem Tomma langar að vinna að?  „Já, ég get alveg sagt þér að það skiptir okkur miklu máli að þrífa strandlengjuna hér á Reykjanesi og í raun umhverfis landið. Blái herinn hefur unnið hörðum höndum að því að þrífa hér strandlengjuna og ég get sagt þér það að hún er nánast á kafi í plastrusli," segir Tommi og bendir á myndir frá hreinsunarstarfinu.

Hirtu ankeri og seldu
Í kringum 1995 fékk Blái herinn leyfi hjá Ellerti Eiríkssyni þáverandi bæjarstjóra til að hirða upp ankeri sem lágu á Keflavíkinni. Þetta voru gömul bólfæri frá þeim tíma þegar engar hafnir voru hér. „Bátarnir lágu þá við bólfæri og það fór einn og einn bátur að þessari einu bryggju sem var hér fyrir neðan þar sem landað var úr bátnum. Við sáum okkur leik á borði og ákváðum að hirða ankerin, selja þau og nota ágóðann til tækjakaupa. Fyrsta árið tókum við upp 15 ankeri og seldum þau og fyrir ágóðann keyptum við bát, mótor og lyftibelgi til að halda áfram að hirða upp ankeri. Þannig byrjaði ævintýri Bláa hersins. Ankerið sem er í smábátahöfninni var það fyrsta sem við tókum upp."

Styrkur frá umhverfisráðherra
Í kringum allt hugsjónarstarf er gríðarleg undirbúningsvinna og hefur Tommi fengið að kynnast því. Hann hefur sótt um styrki fyrir Bláa herinn um allar jarðir. „Mér fannst eðlilegast að geta farið til umhverfisráðherra sem þá var heltekinn af starfsemi Græna hersins sem Stuðmenn stóðu fyrir og fór þvers og kruss um allt land. Ráðherra var búinn með allt fjármagnið sem notað var til styrktar ýmsum málefnum en hún lét mig hafa 25 þúsund krónur. Það var fyrsta framlagið sem umhverfisráðherra styrkti Bláa herinn með og ég var ákaflega þakklátur. Það sýndi það að ég gæti sótt um aftur næsta ár ef ég yrði sniðugur og myndi halda utan um það sem við værum að gera og senda það inn í erindaformi með myndum," segir Tommi og brosir.

Leiðréttum fortíðina fyrir framtíðina
Blái herinn er með slagorðið Leiðréttum fortíðina fyrir framtíðina og segir Tommi að það séu til allskyns úrræði fyrir fólk til að losa sig við það sem tilfellur af rusli. „Af hverju er það þá að nota sjóinn til að henda þessu rusli? Þessi hugsunarháttur er út úr kortinu í dag. Ef við ætlum að vera fyrirmyndarsamfélag þá verða allir að leggjast á eitt í þessu máli. 95% þjóðarinnar hugsar um þessi mál en það eru þessi 5% sem angra alla hina með aumingjaskap," segir Tommi ákveðinn.

Nú eru 10 ár síðan vísir að Bláa hernum varð til. Finnurðu fyrir hugarfarsbreytingu hjá fólkinu?
Já, ég finn það og það vita mjög margir af því sem við erum að gera. Það auðvitað skiptir máli en við þurfum að verða meira áberandi.

Hefurðu fundið fyrir miklum stuðningi?
Reykjanesbær hefur hrundið af stað heilmiklum hreinsunarverkefnum sem er mjög gott mál. Ég sit í umhverfisnefnd ásamt fleiru góðu fólki og það er vilji til að gera meira.  Bæjarstjórinn á mikinn heiður skilið fyrir að vilja hreinsa strandlengjuna og fegra bæinn. Þetta er allt í beinu framhaldi af því að verið er að byggja þetta sveitarfélag upp með miklum myndarbrag.  Ég er ofsalega sáttur við það að Reykjanesbær ætli að hreinsa til við Stapann. Það finnst mér mjög spennandi verkefni því þar eru hundruðir tonna af járnarusli. Þetta var öskuhaugur allra Reyknesinga í gamla daga og þar var ruslinu sturtað fram af. Og þetta er nefnilega verið að gera víða um land, að sturta rusli í sjóinn. Það þarf að taka á þessu máli og benda sveitarfélögum á þetta. Ég hef trú á því að það eigi eftir að verða mikil hugarfarsbreyting hjá sveitarfélögum landsins í framtíðinni. Ég skal glaður benda á ruslahaug sem er í alfaraleið til höfuðborgarinnar og sést vel frá þjóðvegi 41, strandlengjan milli álversins og golfvallarins þar, algjör synd fyrir Hafnfirðinga að hafa þetta svona.

Hvað með unga fólkið?
Síðasta sumar virkjaði ég með mér hóp af unglingum til að þrífa Fitjasvæðið og það gekk mjög vel. Krakkarnir voru áhugasamir. Núna langar mig til að virkja unglinga úr golfinu og fá þau í hreinsun í Leirunni í vor og þrífa strandlengjuna við golfvöllinn því hún er alveg pökkuð af rusli. Það eiga eftir að koma margir vörubílar af rusli þaðan. 

Sérðu mikið af svona verkefnum á Suðurnesjum?
Já, um allan skagann. Það eru svo ótrúlega margir staðir sem við þurfum að hreinsa hér á svæðinu.

Hvert er framhaldið?
Ef Blái herinn myndi fá gott bakland til að geta unnið með þá er Ísland stórt og strandlengjan löng. En þar sem við auglýsum fyrir útlendinga að Reykjanesið sé fyrst og síðast á ferð útlendinganna þá byrjum við að þrífa hér á skaganum og gerum hann umhverfisvænni en hann er.
Blái herinn ætlar sér stóra hluti í framtíðinni. Við ætlum okkur að fara inn í alla grunn- og leikskóla á landinu með ákveðið umhverfisverkefni þar sem við ætlum að ná til barnanna. Við ætlum að koma með lífið úr sjónum til þeirra í fiskikörum og segja þeim hvað dýrin heita, fræða þau um dýrin og leyfa þeim að lita þau í litabókina sína. Jafnframt ætlum við okkur að fræða þau um umhverfismál svo langt sem þau skilja. Blái herinn hefur skorað á forseta Íslands til að taka þátt í hreinsunarverkefni á Álftanesi í vor þar sem fjörur verða hreinsaðar við Bessastaði.

Var uppsögnin hjá slökkviliðinu hluti af kölluninni - átti þetta að fara svona?
Ég er alveg sannfærður um að uppsögn mín hjá slökkviliðinu er hluti af þessu ferli því ég held að landið okkar, sem alltaf er verið að auglýsa svo hreint, þurfi á einhverjum að halda sem mun vinna að því að bæta ímyndina. Það er til ofsalega mikið af búrókrötum sem semja allskyns reglur sem fólk reynir að fara eftir en reglugerðafarganið lendir bara í skúffum eða hillum, en það eru nú ekki margir sem gera út á það að vilja verða ruslakallar. En ég er alveg sáttur við það ef ég á eftir að geta lifað mannsæmandi lífi og byggt upp minn Bláa her og þessa hugsjón að við getum leiðrétt fortíðina fyrir framtíðina. Ég yrði sáttur við það hlutverk því það er mín köllun.

Myndir: VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson og úr einkasafni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024