Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 14. janúar 1999 kl. 19:03

MAÐUR ÁRSINS 1998 AÐALHEIÐUR HÉÐINSDÓTTIR - STYRKIR MIG Í TRÚNNI AÐ HALDA ÁFRAM Á SÖMU BRAUT

Það eru fáir ef einhverjir á Íslandi sem komast með tærnar þar sem hún hefur hælana þegar umræðan berst að kaffi. Daglega drekkur fólk almennt fleiri bolla af þessum eðaldrykk en nokkrum öðrum vökva. Alls staðar er boðið upp á kaffi þegar við komum í heimsókn og sennilega nýtur enginn drykkur jafn mikilla vinsælda um heim allan eins og sá sem Aðalheiður hefur gert að lífsviðurværi sínu. En þröskuldarnir hafa verið margir í vinnuferlinu en elja hennar og viðleitni hafa sennilega komið henni langleiðina þangað sem hún ætlar sér að vera. Hún berst ekki með kjafti og klóm að settu markmiði, heldur einbeitir sér að því að kenna fólki að drekka gott kaffi og þar er hún svo sannarlega á heimavelli. Það sýna allar sölutölur undanfarinna ára að stefna og fyrirhyggja í markaðsmálum fyrirtækisins eru að skila henni hærri prósentuaukningu en þekkist víðast hvar í sambærilegum iðnaði. Viðbrögðin hennar við fréttunum voru einföld en skýr; „Ég hélt að Palli væri að gera at í mér“ segir hún og hlær að samtalinu sem hún átti við ritstjórann deginum áður. „Mér finnst ég bara vera að vinna vinnuna mína og þessi vinna er ekkert merkilegri en einhver önnur“ bætir hún hæversk við og spyr bónda sinn hvað honum finnist um tilnefninguna. Hann er rétt skriðinn inn úr dyrunum og segist hafa verið að efna áramótaheitið með því að sprikla í líkamsrækt með bróður sínum og vinum. „Þetta gefur okkur náttúrulega tilefni til margvíslegra hátíðarhalda á árinu, þú getur rétt ímyndað þér það“ segir hann hreikinn en nefnir það einnig að tilnefning eiginkonunnar geri hann miklu óöruggari með sjálfan sig. Það er mikið hlegið að þessu öllu saman og yngsta dótturin, Bergþóra, sem er 10 ára, er afskaplega ánægð með mömmu sína. Hún var spennt yfir öllu tilstandinu og kenndi ljósmyndaranum ýmislegt varðandi uppstillingar í myndatökunum. Hin börnin, Andrea 18 ára og Héðinn 12 ára voru öllu rólegri yfir þessu og tóku þessu með stillingu eins og mamman. Öryggi eiginmannsins, Eiríks Hilmarssonar, var allt að koma til enda þarf hann á því að halda í starfi sínu sem staðgengill hagstofustjóra. Móðir Aðalheiðar var hins vegar svo hrærð yfir þessu að hún átti erfitt með svefn nóttina eftir að henni bárust tíðindin. „Ég var nú að velta þessu öllu fyrir mér í morgun“ segir Aðalheiður „og þá rifjaðist það upp fyrir mér, að þegar ég var einhverju sinni á ráðstefnu í Boston þá var þar einn maður sem var alltaf að skamma mig fyrir að líta svo mikið upp til kollega minna á ráðstefnunni og ég væri að gera lítið úr mér með því. Þessi maður á og rekur um hundrað kaffiverslanir í Ameríku og veltir einhverjum milljörðum. Ég spurði hann þá hvað væri athugavert við það, enda væri ég bara með pínulítið fyrirtæki á Íslandi, fátt fólk í vinnu, allt svo miklu einfaldara og gerði eins lítið úr mér og ég gat. Þá sagði hann við mig; „Nei, það varst þú sem byrjaðir og þú ert frumkvöðullinn. Ég fór bara í skóla, lærði mína viðskiptafræði og tók við framkvæmdastjórastöðu í fyrirtækinu en þú fékkst hugmynd og lést á hana reyna!“ Ég fór þá að velta þessu fyrir mér að e.t.v. væri ég kjarkaðri en sumir og hefði þorað að láta reyna á þessa hugmynd mína hér á landi. Það eru nefnilega ekki allir sem þora. En vissulega fór ég hægt af stað og framleiðslan hefur aukist jafnt og þétt síðan. Gangurinn í fyrirtækinu hefur að mínu mati verið mjög eðlilegur og engar stórar áhættur verið teknar frá byrjun. Ég læt mér nægja eitt verkefni í einu og geri yfirleitt hlutina að vel yfirlögðu ráði“. Þráði heitt að verða húsmóðir Aðalheiður er fædd og uppalin í Keflavík og er dóttir hjónanna Héðins Skarphéðinssonar og Berþóru Guðlaugar Bergsteinsdóttur. Hún hefur búið alla sína tíð hér í bænum að undanskildum fimm árum í Ameríku og einu ári þegar hún var í Fósturskólanum þar sem hún lauk námi. Síðar varð hún forstöðukona á Tjarnarseli og starfaði þar allt þar til þau ákveða að flytja til Ameríku árið 1984, þar sem Eiríkur hafði ákveðið að fara í Master-nám að loknu BA-námi í uppeldisfræði í Háskólanum. Hún segist sjálf hafa verið búin að fá nóg af barnauppeldinu á leikskólanum og þráði það mjög heitt að verða húsmóðir enda ætlaði hún sér aldrei að fara að læra. Hún var samt alveg ákveðin í því að eiga fleiri börn á þessum tíma en þá var Andrea 4 ára gömul. Úr því rættist og eignast þau hin tvö í útlandinu. En það var líka fleira sem gerðist þarna úti, sem síðar átti eftir að breyta öllu hennar lífi. Hún smakkaði nefnilega gott kaffi. „Það voru nokkrar kaffibúðir þarna sem við bjuggum og ég hafði aldrei smakkað „gott“ kaffi áður eins og ég vil kalla það, bara þetta venjulega Gevalia kaffi sem keypt var á leikskólanum og víðar. Og það sem meira er, mér fannst kaffi ekkert sérlega gott en ég drakk það bara af gömlum vana. Þarna kynntist ég hinsvegar í fyrsta skipti góðu kaffi og mér fannst voðalega skemmtilegt að fara í kaffibúðirnar og velja úr tegundunum, því eina vikuna valdi maður þessa tegund og í næstu vikuna einhverja aðra. Baunirnar malaði ég sjálf heima fyrir og síðan fylgdu þessu alls kyns kúnstir og áhöld til að gera athöfnina dálítið merkilegri. Ég hafði líka svolítið meiri tíma til þess að dunda við þetta sem húsmóðir og þar sem gestagangurinn á heimilinu var líka tíður varð þetta hreinlega að áhugamáli“. Keypti ofninn af kennaranum Þegar hér er komið við sögu bauð skólinn, þar sem eiginmaður hennar nam sín fræði, upp á námskeið um kaffi og sótti Addý, eins og hún er oftast kölluð, námskeiðið sér til ánægju og yndisauka. Um leið og áhugi hennar jókst á viðfangsefninu fór hún að lesa sér meira til um það og keypti sér fjöldann allan af bókum sem hún las alveg upp til agna. Fleiri námskeið fylgdu í kjölfarið sem leiddu af sér að hún bað einn kennarann, sem Victor heitir og átti bæði kaffibúðir og brennslu, að kenna sér að brenna. Hann tók erindinu vel og kenndi henni einnig galdurinn að smakka og velja réttu baunirnar. Eftir það bauð hann henni líka vinnu í einni búðinni sinni og þar með var ísinn brotinn. Þessi fræði kom hún með í farteskinu sínu heim til Íslands og meira til, því hún keypti einn af ofnum kennarans og tók hann með sér heim. „Í upphafi ætlaði ég að setja upp litla sæta kaffibúð því það var eitthvað svo kvenlegt og hugsunin um iðnrekstur var alls ekkert uppi á pallborðinu. Hinsvegar þegar við komum heim með börnin þrjú, hann atvinnulaus og við í gömlu húsi sem mikið þurfti að laga, þá lá það fyrir að við myndum ekki standa í miklum fjárfestingum. Ofninn höfðum við keypt fyrir peninginn af bílnum sem við áttum úti og það tók okkur heilt ár að koma fyrirtækinu í gang. Ég var ein í þessu til að byrja með og fékk vinnuaðstöðu á efri hæðinni á verkstæðinu hjá honum pabba. Þar er ég reyndar enn, en er fyrir löngu búinn að spengja húsnæðið utan af mér og þarf að fara að flytja mig í stærra. Það er næsta verkefnið mitt“, segir hún og er hvergi bangin. Orðin kaffigúru landsins Kaffitár á tíu ára afmæli nú í haust og þegar Addý rifjar upp fyrstu dagana sem framleiðslan fór í búðir, sagði hún að fyrsti viðskiptavinur Kaffitárs hafi verið Samkaup og fyrsta framleiðslan hafi komið í búðir þann nítjánda níunda nítján hundruð og níutíu. Kaffið var fljótlega komið í allar verslanir á Suðurnesjum en fyrirtækin tóku henni einnig vel og pöntuðu á kaffistofur starfsmanna sinna. Einna erfiðast þótti henni að koma vörunni inn á veitingastaðina, þar sem hún hélt að yrði auðveldast að selja vöruna. Straumhvörfin urðu síðan þegar hún komst með vöruna inn í Hagkaupsverslanirnar og það tók hana tvö ár að sannfæra þá um það. Það tók hana önnur tvö ár að sannfæra þá um að setja upp kvarnir og stauka í verslanir þeirra en allt gekk þetta upp á endanum. Fólk var bara svo ómeðvitað á þessum tíma um að það væru til gæðaflokkar í kaffi en hún er sannfærð um að sér hafi tekist að vekja athygli landans á þessari staðreynd og fyrir vikið er hún orðin nokkurs konar kaffigúrú landsins. Það verður hún svo sannarlega vör við í starfinu og hún er ánægð með að hafa vakið fólk til meðvitundar um þetta. „Þessar kenningar sem ég hafði hafa allar gengið eftir og þessar kenningar eru ekkert mínar kenningar, því þetta er byggt á því sem er að gerast úti í heimi og reynslu annarra manna. Lögmálin eiga sem sagt alveg við bæði hérna heima á Íslandi sem og úti í heimi. Þegar síðan boltinn fer að rúlla og varan komin í flest alla stórmarkaðina, þá verður merkið þekktara og hlutirnir að ganga betur. Í dag er ég að svara fyrirspurnum úr öllum áttum, fólk er að hringja og spyrjast fyrir um hitt og þetta, samkeppnisstofnun hringdi um daginn til að fá sérfræðiálit í deilumáli og fjölmiðlar hafa einnig mjög oft samband við mig. Það er nefnilega þannig að það er ekkert voða mikið um kaffi sem við vitum ekki um og það held ég að sé styrkur fyrirtækisins, nefnilega þekkingin á vörunni sjálfri. Ég hef verið dugleg að sækja námskeið erlendis og nú er svo komið að ég farin að kenna á þeim og byrjaði á því í fyrra, að aðstoða Victor vin minn að kenna fólki að búa til kaffiblöndur. Þá hef ég líka verið mjög heppin með starfsfólk og þessar konur sem ég er með núna eru afskaplega góðar, bæði eru þær áhugasamar og lifandi í þessu með mér“. Var talin klikkuð að hafa reyklaust Kaffitár rekur nú tvo kaffistaði í Reykjavík og er annar þeirra nokkurs konar kaffibar í Kringlunni en hinn er kaffihús og verslun í Bankastræti. Þó kaffibarinn í Kringlunni sé ekki stór, þá segir hún staðinn vera einhverja þá bestu auglýsingu sem hægt sé að hafa og í dag kannast flestir við nafnið Kaffitár. Þá bryddaði hún upp á nýjungum sem ekki höfðu tíðkast mikið áður en það var að kenna fólki að taka kaffið með sér. Fólk var ekki alveg sátt við það í fyrstu að taka kaffið með sér í frauðglasi eða plastmáli en núna er u.þ.b. þriðjungur sölunnar þar á þessum nótum og mikið notað af starfsfólki Kringlunnar sem og öðrum á leið úr verslunarleiðangri. Þessi markaðssetning gekk eftir hjá henni og enn á ný reyndi hún hið ómögulega þegar hún opnaði kaffihúsið í Bankastræti. „Markaðshópurinn niður í bæ er allt annar en inni í Kringlu og mér fannst svolítið spennandi að opna stærri stað og sjá hvað hægt væri að gera með því. Ég ákvað strax að hafa staðinn reyklausan og fyrstu viðbrögð fólks við því, voru að telja mér trú um að ég væri klikkuð. Það væri ekki hægt að reka reyklaust kaffihús. Núna ári seinna, hefur mér tekist að sanna að þetta var hægt og þá kemur bara annar kúnnahópur sem vill hafa reyklaust. Við erum t.d. með mjög mikið af ungum mæðrum sem koma á morgnana með börnin sín með sér og geta þá leyft þeim að vera hjá sér í heilbrigðu umhverfi. Síðan settum við upp skiptiborð handa þeim á snyrtingunni og því er hægt að segja að staðurinn sé mjög barnvænn. Einnig sækir til okkar mikið af söngfólki úr óperunni sem vill ekki vera í reyk, þannig að það eru alveg nýir hópar fólks í kaffihúsamenningunni sem verða til hjá okkur“. Súkkulaðisósa út í kaffið Hún hjálpaði einnig eiganda kaffihússins á Vellinum að koma undir sig fótunum enda þekkti hún bandarísku kaffimenninguna út í gegn og gat því leiðbeint eigandanum hvernig hann ætti að bera sig að. Addý segir að það hafi orðið alger sprengja þarna upp frá strax frá opnun og meira segja væru biðraðir við dyrnar strax klukkan sjö á morgnana. Eigandinn fór að einu og öllu sem hún hafði sagt við hann og fékk alla þá fræðslu og upplýsingar sem á vantaði. Þetta er að sögn Addýar ein aðalástæðan fyrir þessum góðu undirtektum sem staðurinn fékk strax í upphafi. „Það sem mér þykir skemmtilegast að gera í þessu öllu er að kenna fólki að drekka kaffi, fræða það um það og að fólkið verði einhvers vísari á eftir, það hagnist á því sem ég er að segja og kenna. Bandaríkjamenn eru að vísu svolítið frábrugðnir í sínum kaffivenjum og þar er notað miklu meira af sætum efnum til að bragðbæta kaffið, t.d. nota þeir miklu meiri sykur en við, sírópið nota þeir margfalt meira og meira að segja setja þeir líka súkkulaðisósu út í kaffið sitt, þannig að þær eru ýmsar útgáfurnar sem við sjáum í kaffimenningunni“. Kaffirisi bauð gull og græna skóga Fyrir þremur árum síðan bauð risi í kaffigeiranum henni að gerast framkvæmdastjóri fyrirtækisins og þá kitlaði það hana dálítið að taka við starfinu, enda buðu þeir henni gull og græna skóga í laun auk ýmissa annarra hlunninda. Hún var mætt inn í Reykjavík eftir nokkra umhugsun og var tilbúin að skrifa undir, en á lokasprettinum kom í ljós að þeir vildu ekki borga henni nægilega vel fyrir fyrirtækið Kaffitár, sem átti að fylgja með í kaupunum. „Eftir á að hyggja, held ég að þeir hafi ekki áttað sig á verðmætunum í Kaffitári. Til að áætla verð fyrirtækisins, settum við meira að segja upp áætlun um það hvernig við héldum að Kaffitár myndi verða og þróast m.t.t. söluaukningar á markaðnum. Þessar tölur hafa allar staðist og rúmlega gott betur en það og því er ég afskaplega ánægð yfir því í dag að hafa ekki stigið þetta skref. Í áætlunum gerðum við ráð fyrir 15% söluaukningu á ári en hún hefur haldist nærri 35% síðan og núna vorum við að gera upp sl. ár og kom þá í ljós að aukningin var 39% sem hlýtur að teljast bara nokkuð gott“. Hjálparhönd til Hondúras# Hefðbundinn vinnudagur hjá henni byrjar klukkan átta á morgnana og fram að hádegi er allskyns umsýsla með pantanir og framleiðslu dagsins. Hún sér einnig um öll erlend samskipti og pantanir viðvíkjandi þeim þætti. Á hverjum degi er framleiðsla síðasta dags smökkuð og það sér hún um ásamt brennaranum. Allir nýir viðskiptavinir og kaffihús eru einnig í hennar höndum og má segja að hún sé því alveg komin út úr framleiðslunni sem slíkri. Hún segist líka vera með svo gott fólk sem sjái um þann þáttinn að hún hafi alveg getað snúið sér frá því til að sinna öðrum störfum. Inn í Reykjavík hefur hún verslunarstjóra til að sinna þeim tveimur stöðum en sjálf hefur hún séð um þjálfun og fræðslu starfsfólksins. En hún hugsar líka um að láta eitthvað gott af sér leiða og nú um jólin setti hún á markað nýtt kaffi þar sem ákveðinn hluti af verði vörunnar fer til hjálparstarfs í Honduras og Nigaraqua, til að styrkja fórnarlömb fellibylsins Mitch. Þetta kallaði hún Kaffihjálp enda mikið af kaffibændum sem búa í þessum löndum. „Við vorum ákveðin í því að rétta þessu fólki hjálparhönd því við höfum heimsótt þessi lönd og þekkjum fullt af fólki og bændum sem urðu fyrir skaða. Ég hafði samband við ýmsa aðila m.a. auglýsingastofu, sem tók vel í málið og reyndar allir þeir sem við töluðum við. Þetta var svolítið erfitt að standa í þessu í miðjum jólaönnum því það þurfti náttúrulega að hafa samband við allar búðir til að biðja verslunarstjórana um taka þetta nýja kaffi inn. Síðan bættu þeir um betur hjá Nýkaup, loksins þegar þeir fengust til að taka kaffið inn og létu 50 krónur í viðbót af hverjum pakka renna til hjálparstarfsins. Ég er nú ekki alveg búin að taka þetta saman en mér sýnist að það hafi safnast nokkur hundruð þúsund til þessa hjálparstarfs. Þetta var alveg virkilega skemmtilegt og ég er viss um að við eigum eftir að taka þátt í fleiri slíkum verkefnum“. Bærinn orðinn fjölskylduvænni En nú vindum við okkar kvæði í kross og forvitnumst eilítið um heimahagana og álit hennar á bæjarfélaginu. Húsið að Brunnstíg 3 keyptu þau árið 1981 og hafa síðan verið að gera það upp. Í fyrstu var það í hálfgerðri niðurníðslu, einangrun lítil sem engin og gluggarnir í molum. Hún man meira að segja eftir því þegar vatnið fraus í baðkarinu þegar hún lagði taubleyjurnar í bleyti forðum daga. Í dag verður ekki annað sagt en að þrautseigja þeirra hafi borið árangur enda voru þau bæði róleg yfir ástandinu og létu það ekkert fara í pirrurnar á sér. Þau hafa nú bæði lagað húsið að utan og innréttað það á mjög smekklegan hátt að innan og núna standa þau í stórræðum með garðinn í kring. „Alltaf eitthvað á hverju ári“, eins og hún orðar það. En hvað finnst henni þá um bæinn sinn? „Mér finnst margt hafa breyst á liðnum árum og ég held að við getum verið sammála um það, að bærinn er orðinn miklu fjölskylduvænni. Einnig finnst mér skemmtilegt hvað gamli bærinn er að verða fallegur og hvað bæjarfélagið hefur tekið vel til hendinni til jafns á við okkur eigendurna. Einnig finnst mér kirkjumálið hafa komið vel út, þó svo að einhverjir hafi verið á móti breytingunni. Ég hefði ekki getað hugsað mér annan og betri stað fyrir kirkjuna en einmitt hérna í hverfinu. En ég held að við ættum að standa okkur betur í skólamálum, hlúa betur að skólastarfinu og gera meiri kröfur til okkar allra“. Fleiri sem eiga þetta skilið Að lokum er ekki úr vegi að spyrja mann ársins á Suðurnesjum hvort tilnefningin komi til með að hafa einhver áhrif á rekstur fyrirtækisins og hvaða þýðingu nafnbótin hafi fyrir hana. „Það er náttúrulega voðalega skemmtilegt að vita til þess að fólki finnist áhugavert það sem maður er að gera og það styrkir mig í trúnni að halda áfram á sömu braut. Það er nefnilega þannig að það vilja allir vera í vinningsliðinu og þegar þú ert að gera góða og trúverðuga hluti, þá vill fólk kaupa þig. En ég er líka handviss um, að það er fullt af fólki úti í bæ sem á þetta skilið. Hinsvegar ætlum við okkur núna að sjá hvar við stöndum með því að taka þátt í alþjóðlegri „barista“ keppni sem haldin verður í Fíladelfíu í Bandaríkjunum í apríl næstkomandi en það er keppni kaffiþjóna sem lært hafa að laga ekta expressó kaffi og þátttakendurnir verða nálægt hundraðinu. Þetta krefst mikillar tækni og hundruð smáatriða til að laga góðan drykk og nú erum við farnar að liggja yfir kaffibókum til að undirbúa okkur fyrir keppnina og ætlum okkur jafnvel að koma með séríslensk efni í blöndunina. Þetta viðheldur okkur í því að vilja verða enn betri en við erum og kannski fáum við úr því skorið hvar við stöndum gagnvart umheiminum en umfram allt ætlum við okkur að hafa gaman að þessu“, sagði Aðalheiður Héðinsdóttir, maður árins 1998 að endingu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024