Má bjóða þér einbýlishúsalóð með 50% afslætti?
Fyrir um þremur árum var slegist um byggingalóðir og jafnan mikill atgangur þegar lóðaúthlutun fór fram. En nú eru breyttir tímar og ekki lengur slegist um lóðir á uppsprengdu verði. Þetta sést m.a. annars á því að á heimasíðu sveitarfélagsins Voga er nú verið að bjóða einbýlishúsalóð á 50% afslætti.
Um er að ræða einbýlishúsalóð við Vogagerði 23. Lóðin hefur áður verið auglýst laus til umsóknar, en er nú auglýst með 50% afslætti á gatnagerðargjöldum. Gatnagerðargjöld eru þrjár milljónir króna með ofangreindum afslætti, að því er fram kemur á heimasíðu sveitarfélagsins. Þá er jafnframt vakin sérstök athygli á því að lóðin er í grónu hverfi og því ríkari kröfur um frágang og byggingarhraða. Frestur lóðarhafa til að hefja framkvæmdir á lóðinni eru sex mánuðir frá því að honum berst tilkynning um úthlutun lóðar. Innan árs frá úthlutun skal bygging vera fokheld, tilbúin að utan og lóð grófjöfnuð. Innan 2ja ára frá úthlutun skal bygging vera að fullu lokið ásamt frágenginni lóð.
Sjá nánar á www.vogar.is
----
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Horft yfir Voga á Vatnsleysuströnd.