Lýsa undrun og vanþóknun
Starfsmenn Keflavíkurflugvallar ohf lýsa undrun og vanþóknun á gangi mála við gerð kjarasamninga og vilja að málum verði vísað til Ríkissáttasemjara nú þegar. Þeir krefjast þess jafnframt að stjórn félagsins undirbúi kosningu til að afla verkfallsheimildar.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Félag flugmálastarfsmanna ríkisins (FFR) samþykkti á fundi í gær.
Yfirlýsingin er svohljóðandi:
„Yfirlýsing starfsmanna Keflavíkurflugvallar ohf, samþykkt á fundi félaga í Félagi flugmálastarfsmanna ríkisins þ. 25 janúar 2010.
Félagar FFR, starfsmenn Keflavíkurflugvallar ohf, lýsa yfir undrun og vanþóknun á gangi mála við gerð kjarasamninga.
Augljóst er eftir síðasta samningafund FFR og SA, að lengra verður ekki komist þar sem samningsvilji virðist ekki til staðar að hálfu vinnuveitanda.
Það er því krafa fundarmanna að stjórn FFR vísi málinu nú þegar til Ríkissáttasemjara. Þess er jafnframt krafist að stjórn FFR hefjist nú þegar handan við að undirbúning kosninga til að afla verkfallsheimildar.
Þá er það skýlaus krafa fundarmanna, að launamunur við viðmiðunarstéttir verði að fullu leiðréttar en þar hafa FFR félagar borið mjög skarðan hlut frá borði á undanförnum árum.
Félagsmenn FFR á Keflavíkurflugvelli munu ekki lýða frekari seinagang við gerð kjarasamnings, sér í lagi með hliðsjón af auknu vinnuálagi vegna þeirra aðstæðna sem skapast hafa í flugheiminum á undanförnum árum og misserum.
Þannig samþykkt samhljóða af fundarmönnum og sent stjórn FFR“.