Lyktin var vegna fiskúrgangs
Fnykurinn sem lagði yfir Reykjanesbæ í gærkvöldi var vegna þess að fiskúrgangi til áburðar var dreift á Miðnesheiði og þar sem vindátt var að norðan lagði fnykinn yfir bæinn. Nokkrar tilkynningar bárust til lögreglu vegna þessa, enda vart þorandi út á tímabili svo megn var stækjan.
Í gærkvöldi var einn ökumaður kærður fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut og annar stöðvaður innanbæjar í Reykjanesbæ fyrir að vera ekki með bílbeltið spennt. Þriðji ökumaðurinn var síðan stöðvaður fyrir að aka með þokuljós tendruð þó svo skilyrði hafi ekki verið slík að þeirra hafi verið þörf.
Þá voru fimm ökutæki boðuð í skoðun vegna vanrækslu á aðalskoðun.