Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lúxushótel og stækkun á Bláa lóninu kosta 6 milljarða
Vinstra megin á myndinni má sjá áætlað hótel og stækkun á lóninu.
Föstudagur 7. nóvember 2014 kl. 07:00

Lúxushótel og stækkun á Bláa lóninu kosta 6 milljarða

Áætlað að framkvæmdir taki tvö ár. Um 100 manns munu vinna við breytingarnar.

Bláa Lónið hefur framkvæmdir við stækkun upplifunarsvæðis og byggingu lúxushótels. Starfsmenn verða 400 að loknum framkvæmdum.


Heildarkostnaður vegna stækkunar Bláa lónsins og byggingar lúxushótels nemur 6 milljörðum króna en mannvirki staðarins munu tvöfaldast í stærð. Heildarstækkun á núverandi- og nýju upplifunarsvæði ásamt hóteli nemur um 10.000 fm. Á framkvæmdatíma sem áætlað er að verði tvö ár munu 150 starfsmenn starfa við verkefnið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nýtt upplifunarsvæði verður byggt inn í hraunið vestur af núverandi lóni og mun svæðið tengja núverandi lón og lúxushótel. Með tilkomu hótelsins verður fyrsta flokks gisting hluti af upplifun í Bláa Lóninu. Í hótelinu er gert ráð fyrir 60 herbergjum, veitingastað og fjölnota fundarsal.  

Stækkun og endurhönnun núverandi upplifunarsvæðis er mikilvægur þáttur í uppbyggingunni, en lónið sjálft verður stækkað um helming. Ný og glæsileg aðstaða fyrir spa meðferðir sem boðið er upp á ofan í Lóninu er hluti stækkunarinnar. 

Hluti endurhönnunar felst einnig í enn betri hitastýringu á lóninu sjálfu auk þess sem aðgengi að hreinlætisaðstöðu á lónsvæðinu verður aukið. Verkefnið er í takt við þróun Bláa Lónsins undanfarin ár þar sem jafnt og þétt hefur verið unnið að því að auka úrval og gæði þjónustu.

Jarðvegsframkvæmdir munu hefjast í árslok 2014 og áætlað er að uppbyggingunni verði lokið vorið 2017. 

 „Uppbyggingin er táknræn fyrir áherslu Bláa Lónsins um að styrkja stöðu sína sem einstakur viðkomustaður ferðamanna á heimsvísu. Ísland þarf í auknum mæli að horfa til þess að höfða til fólks sem leitar eftir miklum gæðum í þjónustu og aðbúnaði. Bláa Lónið vill halda áfram að sinna forystu í því að leiða íslenska ferðaþjónustu enn frekar á þær brautir og stuðla þannig að aukinni samkeppnishæfni Íslands á alþjóðlegum ferðamannamarkaði,“ segir“ Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins.


Sigríður Sigþórsdóttir, hjá Basalt arkitektum, er aðalhönnuður verkefnisins, en hún er arkitekt allra mannvirkja Bláa Lónsins. Sigríður hefur starfað með Bláa Lóninu í tæplega tvo áratugi eða allt frá því að undirbúningur að núverandi mannvirkjum hófst um miðjan tíunda áratuginn. Hönnun Sigríðar fyrir Bláa Lónið hefur vakið athygli hér heima og erlendis, ekki hvað síst fyrir samspil hins manngerða og náttúrulega umhverfis.  

Upplifunarhönnun er órjúfanlegur þáttur af hönnun Bláa Lónsins og hefur teymi starfsfólks Bláa Lónsins ásamt Sigurði Þorsteinssyni og fyrirtæki hans Design Group Italia, unnið að þeim þætti hönnunarinnar. Sigurður, sem er búsettur í Milano á Ítalíu hefur unnið með Bláa Lóninu undanfarin tuttugu ár og stýrt þróun vörumerkis, ímyndar og upplifunar í samvinnu við stjórnendur Bláa Lónsins.

Gert er ráð fyrir 100 nýjum störfum í tengslum við stækkun upplifunarsvæðis Bláa Lónsins og mun hluti starfsfólks hefja störf á framkvæmdatíma. Störfin verða fjölbreytt, en eins og önnur störf hjá fyrirtækinu munu þau miða að því að veita gestum Bláa Lónsins góða og fágaða þjónustu. Hluti starfanna sem verða til við stækkunina munu kalla á háskólamenntað fólk og starfsmenn með sérþekkingu á sviði heilsu og vellíðunar. Hjá Bláa Lóninu starfa um 300 starfsmenn á ársgrunni. Að framkvæmdum loknum er gert ráð fyrir því að heildarstarfsmannafjöldi verði 400.