Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lúxusgisting við höfnina í Grindavík
Mánudagur 28. ágúst 2017 kl. 06:00

Lúxusgisting við höfnina í Grindavík

Lúxus gisting með útsýni yfir höfnina í Grindavík, sem ber heitið Harbour View, verður í boði frá og með 1. september næstkomandi en Grindvíkingarnir Gylfi Ísleifsson, Jakob Sigurðsson, Kjartan Sigurðsson, Sigurður Óli Hilmarsson og Þormar Ómarsson standa á bakvið fyrirtækið.

„Við fengum hugmyndina að þessu fyrir nokkrum árum þegar við keyrðum fram hjá svæðinu, að vera með eitthvað flott þarna, með útsýni yfir höfnina,“ segir Jakob í samtali við Víkurfréttir, en þessa dagana er framkvæmdunum að ljúka. „Húsin eru tilbúin að innan og í næstu viku ættu þau að vera alveg klár en við gefum okkur góðan tíma í að prófa áður en við förum að bjóða borgandi kúnnum að koma.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Unnið er að tíu húsum en áætlað er að þau verði tuttugu. Jakob segir framkvæmdirnar kostnaðarsamar en lagt var upp úr því að húsin væru vel einangruð, úr gæðaefni og byggð til að þola íslenskar aðstæður.
Nú þegar reka Jakob, Kjartan og Sigurður fyrirtækin Fjórhjólaævintýri ehf. og Reykjanes bike. „Þetta verkefni er til að efla ferðaþjónustu í Grindavík og til að hafa meiri möguleika,“ segir Jakob og tekur það fram að í Grindavík sé þjónusta til fyrirmyndar. „Hér er hugsað vel um kúnnann. Þjónustan á svæðinu hefur verið vel rekin síðustu ár og við erum að skila frá okkur ánægðu fólki. Svo fannst okkur kjörið að tengja þetta við tjaldsvæðið i hérna í Grindavík sem er glæsilegt.“

Ferðamenn í Grindavík hafa aldrei verið fleiri en nú í sumar, en í júní var aðsóknarmet á tjaldsvæðinu slegið þegar gestafjöldinn fór yfir þrjú þúsund. „Ferðamennirnir leita oft niður á höfn og njóta þess að sjá lífið þar.“