Lús herjar á nemendur Heiðarskóla
Þar sem lús hefur komið upp í skólanum í nokkrum árgöngum í Heiðarskóla eru foreldrar beðnir um að kemba hár barna sinna með lúsakambi. Finnist lús eða nit skal strax hefja viðeigandi meðhöndlun.
Þetta er ekki óalgengt en höfuðlúsin (Pediculus humanus capitis) er lítið skorkvikindi sem hefur aðlagað sig manninum og lifir sníkjulífi í hári á höfði og nærist á því að sjúga blóð úr hársverðinum. Hún er ekki talin bera neina sjúkdóma og er því skaðlaus hýslinum. Allir geta smitast af höfuðlús en staðfest smit er algengast hjá 3-12 ára börnum. Höfuðlúsasmit er ekki vegna sóðaskaps, segir á vísindavef Háskóla Íslands.
Mikilvægt er að þeir sem greinast með höfuðlús eða forráðamenn þeirra bregðist strax við smitinu, með þeim aðferðum sem ráðlagðar eru hér á eftir, til að komið sé í veg fyrir dreifingu til annarra.
Lúsin getur farið á milli hausa ef bein snerting verður frá hári til hárs í nægilega langan tíma til að hún geti skriðið á milli, en lúsin getur hvorki stokkið, flogið né synt.
Höfuðlús sem fallið hefur úr höfði og út í umhverfi verður strax löskuð og veikburða og getur þar af leiðandi ekki skriðið á annað höfuð og sest þar að. Þess vegna er talið að smit með fatnaði og innanstokksmunum sé afar ólíklegt. Það er þó ekki hægt að útiloka að greiður, burstar, húfur og þess háttar, sem notað er af fleiri en einum innan stutts tíma, geti hugsanlega borið smit á milli.