Lúin langreyður á Nesjum
Langreyðurin sem rak á land við bæinn Nesjar á Hvalsnesi í ársbyrjun er þar ennþá í fjörunni alveg upp við land. Nokkuð sér á skepnunni og lyktin er ekki góð en fuglar og önnur dýr hafa haft mikið æti en eiga nokkuð í land með að klára hvalinn.
Í frétt Víkurfrétta frá 9. janúar sl. segir að um sé að ræða 17 metra langt kvendýr. Langreyðurin var mögur og var langt undir meðalþyngd slíkra dýra en langreyður getur orðið yfir 20 metra löng og 70 tonn. Ekki voru sjáanlegir áverkar á dýrinu aðrir en þeir sem orðið hafa eftir núning við klappirnar í fjörunni.
Spurningar vöknuðu um hvort langreyðurin hafi drepist vegna plastmengunar. Sölvi Rúnar sagði við Víkurfréttir í janúar sl. að hvorki Þekkingarsetur Suðurnesja né Hafrannsóknarstofnun Íslands hafi kíkt í maga hvalsins. „Það þarf ekkert að vera að þetta sé plastmengun en á sama tíma getur það vel verið. Það fæst ekki staðfest nema með krufningu“.
Nokkuð hefur gengið á dýrið þó enn sé nokkuð í land með að klára allt kjötið
„Ég undirstrika þó að það er algjörlega óvíst úr hverju þessi hvalur drapst. Hvali rak á land löngu áður en plast kom til sögunar svo hann hafði leikandi getað verið veikur, ruglaður, slasaður eða gamall og það orsakað þetta mikla svelti. Hann hafði engin sýnileg ummerki um árekstur við báta né veiðarfæri,“ sagði Sölvi Rúnar Vignisson, líffræðingur hjá Þekkingarsetri Suðurnesja.