Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Lokunarpóstar kosta 1,3 milljónir króna á dag
Mynd: Kristinn Magnússon
Föstudagur 9. ágúst 2024 kl. 10:53

Lokunarpóstar kosta 1,3 milljónir króna á dag

Kostnaður við lokunarpósta við Grindavík er nú um 40 milljónir króna á mánuði. Þetta kemur fram í aðgeraðáætlun framkvæmdanefndar vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ, Grindavíkurnefndarinnar. Þetta gera 480 milljónir króna á ársgrundvelli eða 1,3 milljónir króna á dag. Lokunarpóstar eru á þremur stöðum við Grindavík. Einn við Bláa lónið, annar á Nesvegi og sá þriðji á Suðurstrandarvegi.

Eitt af markmiðum Grindavíkurnefndarinnar er að „stuðla að öflugu atvinnulífi í Grindavíkurbæ.“ Í viðræðum nefndarinnar við hagaðila, s.s. bæjaryfirvöld, fulltrúa atvinnufyrirtækja o.fl. hefur komið skýrt fram að forsenda þess að unnt sé að styðja við atvinnulífið í Grindavík og auðvelda starfsemi þess, sé að aðgengi að bænum verði rýmkað frá því sem nú er og jafnvel að lokunarpóstar verði lagðir niður.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Enn fremur hafa þau sjónarmið komið fram af hálfu Almannavarna, annarra viðbragðsaðila og eftirlitsstofnana að áður en til þess kemur að lokunarpóstar verði aflagðir, sé óhjákvæmilegt að ráðast í margháttaðar aðgerðir til að auka öryggi í bænum.

Vegna þess hefur Grindavíkurnefndin kynnt drög að áðurnefndri aðgerðaáætlun. Helstu atriði áætlunarinnar eru:

Viðgerðir á innviðum: Viðgerðir á gatnakerfi, lögnum og öðrum samgönguleiðum þar sem eru sýnilegar sprungur, þ.m.t. mótvægisaðgerðir vegna flóðahættu við byggingar vestan við höfnina.

Jarðkönnun: Framhald jarðkönnunar til að meta ástand jarðvegs og tryggja öryggi.

Áhættumat: Gerð áhættumats í samvinnu við ríkislögreglustjóra og Almannavarnir.
Mannheldar girðingar við sprungu sveima og önnur óörugg svæði

Kostnaðarskipting: Heildarkostnaður vegna þessara aðgerða er áætlaður 470 m.kr., þar af greiðir ríkið 440 m.kr. og Grindavíkurbær 30 m.kr.

Aðgerðirnar eru mikilvægar til að stuðla að öflugu atvinnulífi og öruggu samfélagi í Grindavíkurbæ eftir því sem aðstæður leyfa. Að jafnaði er unnið að margvíslegum umbótum á innviðum í Grindavík. Framkvæmdir miða meðal annars að því að hægt sé að auka aðgengi að bænum.

Í aðgerðaáætluninni kemur fram að hún miðist við núverandi stöðu, þ.e. að eldgos sé ekki í gangi, en verði breytingar þar á muni að sjálfsögðu þurfa að uppfæra áhættumat og þar með einnig framvindu framkvæmda. Þannig eru aðgerðirnar háðar náttúruöflunum og ekki er unnið að framkvæmdum á meðan frekari jarðhræringar eru yfirvofandi líkt og nú. Vegagerðin er verkkaupi/verkeigandi í umboði Grindavíkurnefndar og Grindavíkurbæjar.