Loks von á úrbótum við Tjarnarbrautarblokkirnar
Blokkirnar hálfbyggðu sem standa við Tjarnarbraut, gegnt Akurskóla í Reykjanesbæ, hafa vakið furðu bæjarbúa. Margir mánuðir eru síðan framkvæmdir Almenna Byggingafélagsins við húsin stöðvuðust og standa þau nú opin hverjum sem er. Börn og unglingar hafa jafnvel vanið komur sínar þangað og brotið rúður sem skapar mikla slysahættu auk þess sem margt er ófrágengið innandyra sem gæti valdið skaða.
Guðlaugur H. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar, sagði í samtali við Víkurfréttir að þeir hafi fengið fjölmargar ábendingar varðandi húsin og lóðina í kring. Ástandið þar hafi alls ekki verið ásættanlegt. Nú færi loks að rofa til og úrbóta að vænta á næstunni.
„Það hefur verið verkbann á húsunum því þau voru í uppboðsferli sem lauk í síðustu viku. VBS Fjárfestingabanki á þessu hús núna og þeir sögðu mér um daginn að þeir væru að fara að ganga í þessi mál. Þeir máttu ekkert eiga við húsið frekar en við vegna verkbannsins, en við vorum alveg að því komnir að fara að loka þessu samt.“
VF-myndir/Þorgils