Lokað fyrir eldsneytisflutninga til Keflavíkurflugvallar?
Reykjanesbrautinni verður lokað og Keflavíkurflugvöllur verður gerður eldsneytislaus ef ekki verður hlustað á hóp atvinnubílsstjóra sem hyggjast loka vegum í Reykjavík. Þetta staðfestir Sturla Jónsson, talsmaður atvinnubílsstjóra, í samtali við Víkurfréttir nú fyrir skömmu.
„Ef að menn hugsa ekki sinn gang þá endar það með því að við lokum Reykjanesbrautinni. Þá leggst af millilandarflug og ef þetta stendur í einhverja daga þá leggjast af allar millilendingar því flugvöllurinn verður eldsneytislaus.“
Sturla telur það ekki líklegt að vegum verði lokað í dag en hann á eftir að heyra í sínum hóp og segir að ákvörðun verði tekin eftir það. „Það er skelfing ef fólk kemst ekki til og frá landinu. Ef það verður ekki á okkur hlustað þá verðum við að finna okkur eitthvað drasl til þess að loka vegunum og þá fær landsbyggðin ekki að éta,“ sagði Sturla.
Hann gefur ekki mikið fyrir yfirlýsingar lögreglunnar í Keflavík og segir það ólíklegt að lögreglunni takist að stöðva mótmælin: „Þeir geta ekkert gert. Með hverju ætla þeir að draga draslið og bílana af vegunum? Sækja jarðýtur? Þær kæmust ekki einu sinni að.“
Hvað handtökur varðar þá segir Sturla Jónsson að atvinnubílsstjórunum yrði sleppt strax aftur og vísar í dæmi þar sem ökumenn hafi verið stöðvaðir sex sinnum á dag en samt alltaf sleppt aftur.
„Mótmælin verða friðsamleg að því leiti að við myndum einungis loka þessu, það veltur allt á því hvað Geir H. Haarde gerir.“
En er þetta sambærilegt því þegar Reykjanesbrautin var lokuð til þess að pressa á tvöföldun Reykjanesbrautarinnar?
„Þetta er sama dæmi.“