Lögreglustöðin til sölu
Heimild er í fjárlögum fyrir árið 2003 að selja húsnæði lögreglunnar í Keflavík, Hringbraut 130 og kaupa annað hentugra eins og það er orðað í fjárlögunum. Víkurfréttir höfðu samband við Jón Eysteinsson, sýslumann í Keflavík og spurðu hann hvort húsnæði hefði fundist. Jón sagði að þessi heimild hefði verið í fjárlagafrumvörpum síðustu tveggja ára:„Það á ekki að selja Lögreglustöðina en það þarf hinsvegar að stækka húsnæðið. Lögreglustöðin er á góðum stað og þegar Dómsmálaráðherra heimsótti Suðurnes fyrir stuttu var hún sammála um að stöðina þyrfti að stækka,“ sagði Jón og bætti við að heimildin í fjárlögum væri nokkurskonar varnagli.